Í Tehúsinu á Egilsstöðum ætla miðaldra karlmenn að koma saman í kvöld og prjóna. Hvort sem það verður með með alvöru prjónum eða ekki. Vegna Covid-19 faraldsins verður fjöldatakmörkun og tveggja metra nándarbann á staðnum.
Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands hlutu á dögunum jafnlaunavottun. Skólarnir hafa komið sér upp kerfi sem á að tryggja það að greidd verði til dæmis sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Í dag mælist mesta úrkoman í Neskaupstað yfir allt landið. Kemur þetta heim og saman við úrkomu síðustu daga en starfsfólk á snjóruðningstækjum hefur vart haft undan við að moka götur og er að heilu dagana að halda götum hreinum í Neskaupstað.
Skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum segir nemendur og kennara við skólann vera að ná tökum á fjarkennslufyrirkomulagi sem komið var á eftir að skólanum var lokað til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Úrræði eru í boði fyrir nemendur sem standa höllum fæti.
Höttur mun spila í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næstu leiktíð. Þetta er niðurstaðan Körfuknattleikssambands Íslands í kjölfar samkomubanns til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar. Þjálfari Hattar segir skrýtið að taka við titlinum við þessar aðstæður en liðið verðskuldi úrvalsdeildarsætið eftir þrotlausa vinnu.
Ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir hafa mælst til þess, í ljósi samkomubanns og óvissuástands vegna útbreiðslu covid-19 veirunnar, að fallið verði frá kosningum í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi sem halda átti 18. apríl. Nýr kjördagur hefur ekki verið ákveðinn en útlit er fyrir að ekki verði kosið fyrr en í haust.
Þrátt fyrir að framhaldsskólum hafi verið lokað til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar halda nemendur Verkmenntaskóla Austurlands áfram að mæta í tíma samkvæmt stundatöflu. Það gera þeir í gegnum netkennslustofu. Skólameistari segir fyrirkomulagið ganga vel, aðeins sé eftir að finna lausn fyrir félagslífið.