Mikill eldur kom upp í einbýlishúsi á Seyðisfirði á sjötta tímanum í kvöld. Talið er að húsið hafi verið mannlaust þegar eldurinn kom upp, það hefur þó ekki verið staðfest. Slökkvilið var búið að ná tökum á eldinum fyrir klukkan sjö.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs verður ekki næsti formaður Alþýðusambands Íslands. Hann beið lægri hlut gegn mótframbjóðandanum Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, á þingi samtakanna í dag. Sverrir varaði forustumenn í hreyfingunni við að fara fram úr almennum félagsmönnum í framboðsræðu sinni í morgun.
Þingmaður Miðflokksins úr Norðvesturkjördæmi telur vert að skoða gerð tvennra jarðganga og færslu einnar brúar til að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Austurlands um 40-60 kílómetra.
Breiðdælingar bjóða öllum Austfirðingum í heimsókn á Menningardegi á morgun. Skipulögð dagskrá er í þorpinu frá morgni til kvölds. Fundir um starf landvarða, ljóðakvöld, kótelettukvöld og óhefðbundin messa eru meðal þess sem eru í boði um helgina.
Umboðsmaður Alþingis telur ekki ástæðu til að gera teljandi athugasemdir við ráðningarferli bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar. Umboðsmaðurinn telur sveitarstjórnir hafa rétt til að ráða sér framkvæmdastjóra á sjónarmiðum sem alla jafna teldust ekki málefnaleg, svo sem af pólitískum toga.