Ekki gott en nógu gott: Höttur með heimasigur á Hamri

karfa hottur stjarnan bikar 0034 webLeikur Hattar gegn Hamri var hvorki sérstaklega skemmtilegur né spennandi. En þrátt fyrir það geta heimamenn fagnað öruggum sigri á frekar slöppu liði Hvergerðinga.

Það var ljóst að gestirnir vissu að þeirra helsti séns lá í að ná upp mikilli baráttu og stemmingu. Þeir tóku fast á Hattarmönnum og hittu þannig á að dómarar leiksins voru tilbúnir að leyfa töluverða hörku. Með þessu tókst Hamri að halda frumkvæði og leiða eftir 1. leikhluta 17-19.

Leikurinn var þarna hnífjafn en það vissi ekki á gott fyrir gestina að þeir litu út fyrir að vera að spila eins vel og þeim var unnt á meðan að ljóst var að heimamenn áttu helling inni.

Enda var annar leikhluti eign heimamanna og kom þar einkum tvennt til. Annars vegar mun betri varnarleikur þar sem þeir fóru í svæðisvörn sem Hamar átti ekkert svar við. Hins vegar datt Austin Bracey í gang þegar líða tók á leikhlutann og endaði fyrri hálfleik með 20 stig.

Einnig er ástæða til að minnast á ágæta innkomu Sigmars Hákonarsonar sem bar boltann vel upp fyrir Hött á þessum leikkafla og losaði um aðra í liði heimamanna. Höttur vann leikhlutann 28-11 og staðan því 45-30 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var boðið upp á meiri barning og hnoð. Í hvert sinn sem Höttur virtist ætla að gera endanlega út um leikinn, þá kom upp einbeitingarleysi í liðinu sem hleypti Hamarsmönnum aftur inn. Þó var það aldrei nóg til þess að leikurinn yrði nokkurn tíma fyrir alvöru spennandi.

Enda dró hvorki sundur né saman með liðunum að ráði í síðari hálfleik. Lokastaðan 97-81. Höttur hefur nú unnið tvo síðustu leiki í deildinni eftir að hafa tapað fyrstu tveimur. Hamarsmenn hafa unnið einn leik af fjórum en leikur þeirra í dag bendir ekki til að þeir muni gera neinar rósir í vetur.

Austin Bracey bar af á vellinum í dag, skoraði 36 stig og hirti 7 fráköst. Skotnýting var til fyrirmyndar hjá honum en hann setti 6 af 10 þristum og 9 af 11 skotum innan línunnar.

Frisco Sandidge var einnig drjúgur hjá Hetti með 25 stig og 16 fráköst. Danero Thomas skoraði 22 stig og tók 11 fráköst fyrir Hamar.

Mynd: Austin Bracey í leik gegn Stjörnunni. Hann bar af í leiknum gegn Hamri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar