Blak: Bæði lið Þróttar töpuðu fyrir norðan

Bæði karla- og kvennalið Þróttar í úrvalsdeildunum blaki töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð sem leiknir voru á Norðurlandi.

Karlaliðið fór snemma af stað norður á föstudag til að verða á undan óveðrinu sem átti eftir að loka Möðrudalsöræfum. En þótt þeir væru mættir tímanlega á Akureyri virtust þeir samt ekki vera tilbúnir í leikinn.

KA hafði algjöra yfirburði í fyrstu hrinu og vann hana 25-10, Þróttur eiginlega rétt náði að laga stöðuna í lokin og ná upp í tveggja stafa tölu eftir að hafa verið 23-8 undir.

Hinar tvær hrinurnar voru ekki jafn slæmar. KA vann næstu 25-21 en Þróttur hafði minnkað muninn í 23-21 og þar með skapað sér veikan möguleika. KA vann þá þriðju 25-22. Jafnt var þar á flestum tölum þótt Þróttur kæmist aldrei yfir.

Karlaliðið er í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig úr níu leikjum.

Kvennaliðið tapaði fyrir Völsungi á Húsavík á miðvikudagskvöld. Fyrstu tvær hrinurnar voru þokkalegar hjá Þrótti, sú fyrsta tapaðist í lokin 25-19 eftir að staðan hafði verið 18-17.

Þróttur byrjaði ágætlega í annarri hrinu en svo fjaraði undan liðinu og Völsungur vann 25-19. Húsavíkurliðið skoraði sex fyrstu stigin í þriðju hrinu og vann hana með yfirburðum, 25-14.

Kvennaliðið er neðst, með 3 stig úr sex leikjum en hefur leikið fæsta leiki í deildinni.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.