Nýr bandarískur bakvörður á leið til Hattar
Körfuknattleiksdeild Hattar tók sér ekki langan tíma að hafa uppi á nýjum bakverði í stað Bandaríkjamannsins Courvoisier McCauley sem látinn var fara í byrjun vikunnar. Annar bandarískur einstaklingur, Justin Roberts, mun koma í hans stað.
Von er á nýja bakverðinum austur á land í næstu viku og vonast Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, til þess að hann verði fái leikheimild og verði klár í tæka tíð fyrir næsta heimaleik félagsins þann 29. nóvember þegar liðið mætir KR.
Justin Roberts er 26 ára gamall og 1.82 á hæðina, kemur frá háskólanum Georgia State en hefur síðustu árin leikið með félögum bæði í Sviss og Makedóníu. Á síðasta tímabili gerði hann að meðaltali 26 stig per leik, tók 4 fráköst og aðstoðaði félaga sína með 6,3 stoðsendingum í leik.
Justin Roberts er frá Indiana í Bandaríkjunum en gekk í háskóla í Georgíu og stundaði þar körfuknattleik samhliða náminu. Mynd Georgia State