Keyra til Zagreb á leikinn: Vonast eftir stemmingu eins og á Seyðisfjarðarvelli
Seyðfirsku bræðurnir Kristján Smári og Jón Kolbeinn Guðjónssyni eru þessa stundina á leið keyrandi til Zagreb þar sem seinni leikur Íslands og Króatíu um laust sæti í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á næsta ári fer fram í kvöld. Þeir vonast til að upplifa sömu stemmingu á vellinum og þeir eru fanir frá Seyðisfirði.„Já, við erum að fara á völlinn,“ sagði Kristján Smári þegar Austurfrétt hafði tal af honum í morgun.
Hann stundar nám í Debrechen í Ungverjalandi ásamt kærustu sinni, Andru Sól og voru Jón Kolbeinn og unnusta, Lilja Rut Traustadóttir, búin að ákveða heimsækja þau um miðjan nóvember.
„Þegar við vissum að seinni leikurinn væri á þessum tíma ákváðum við að skella okkur yfir landamærin og fara á stórleikinn.“
Hópurinn lagði af stað í gær og gisti í nótt í Búdapest. Lagt var snemma af stað til Króatíu í morgun til að undirbúa sig fyrir leikinn.
„Við ætlum að hita raddböndin almennilega upp og vera tilbúin í átökin. Við eigum von á góðri stemmingu á vellinum, ekki ósvipað stemmingunni á Seyðisfjarðarvelli á góðum sumardegi,“ segir Kristján en þeir bræður hafa báðir leikið með meistaraflokki Hugins.
Þau ætla að gista í Zagreb í nótt og halda til baka á morgun. Þeir spá 1-1 jafntefli og að Eiður Smári Guðjohnsen skori sigurmarkið, en slíkt myndi tryggja Íslendingum sæti á mótinu.
Þeir vonast eftir að hitta fleiri Austfirðinga á leiknum en Eskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson er í leikmannahópi liðsins. Fleiri hafa lagt á sig ferðalagið yfir landamærin til Króatíu.
„Það er stór hópur af Íslendingum að fara sem lærir í Ungverjalandi. Ég held að það séu alls um 250 Íslendingar sem séu búsettir á meginlandi Evrópu og ætla að fara til Zagbreb.“