Blak: Þróttur á toppinn eftir sannkallaðar bræðrarimmur
Þróttur Neskaupstað komst á laugardag í efsta sæti Mikasa-deildar karla í blaki eftir tvo 3-2 sigra á Stjörnunni. Báðir leikirnir stóðu í rúma þrjá klukkutíma.Stjarnan vann fyrstu tvær hrinurnar á föstudagskvöl 27-29 og 23-25 en síðan svaraði Þróttur fyrir sig með sömu stigatölu 29-27 og 25-23. Heimamenn unnu loks oddahrinuna 15-9.
Leikurinn stóð í 140 mínútur, sem er með því lengsta sem gerist í íslensku blaki. Hann var mjög spennandi og fékk einn leikmaður Þróttar gula spjaldið.
Valgeir Valgeirsson skoraði 26 stig fyrir Þrótt og Matthías Haraldsson 20 en Róbert Karl Hlöðversson 30 fyrir Stjörnuna.
Seinni leikurinn var ekki síður spennandi. Í það skiptið fékk leikmaður Þróttar gult spjald strax í fyrstu hrinu og í annarri hrinu nefbrotnaði leikmaður Stjörnunnar eftir að hafa lent í samstuði við samherja.
Leikurinn stóð í 130 mínútur og vann Þróttur 25-17, 24-26, 23-25, 25-20 og 15-8. Matthías var stigahæstur Þróttarmanna með 29 stig en Valgeir skoraði 21. Í liði Stjörnunnar skoraði Róbert Karl 21 stig.
Leikurinn var ekki síður merkilegur fyrir þær sakir að bræðrahópur skiptist á milli liðanna. Hlöðverssyni eru fimm talsins en í liði Þróttar voru þeir Geir Sigurpáll og Hlöðver en Ástþór, Róbert og Vignir í Stjörnunni.
Mynd: Þróttur