Erna Friðriks farin út til að æfa fyrir vetrarólympíuleikana: Keppnin harðari en á öðrum mótum

erna fridriksdottir nov13Skíðakonan Erna Friðriksdóttir úr Skíðafélaginu Stafdal hélt um síðustu helgi út til Denver í Bandaríkjanna til að undirbúa þátttöku sína á vetrarólympíuleikum fatlaðra sem fram fara í Sochi í Rússlandi í mars. Hún setti stefnuna beint þangað eftir að hafa keppt á leikunum í Vancouver í Kanada árið 2010.

„Keppnin er í raun sú sama og á öðrum mótum þótt hún sé heldur harðari því aðeins þeir bestu frá hverju landi komast inn á leikana. Þannig eru þeir svipaður og önnur mót en umgjörðin er heldur meiri," er lýsing Ernu á því hvernig sé að keppa á ólympíuleikum.

Hún var fulltrúi Íslands á leikunum í Vancouver árið 2010. „Ég ákvað það fljótt eftir að ég kom heim eftir þá að stefnan væri að komast á næstu leika og fór að vinna í því markmiði."

Það var svo í júní sem staðfest var að hún og Jóhann Þór Hólmgrímsson frá Akureyri færu á leikana í Rússlandi fyrir Íslands hönd en áður höfðu þau náð þeim lágmörkum sem þarf til að öðlast keppnisrétt.

Þau eru nú bæði við æfingar í Winter Park í Denver í Coloradofylki í Bandaríkjunum. „Þetta er í áttunda skiptið sem ég fer á þennan stað. Með okkur starfa fjórir þjálfarar með mismunandi sérsvið.

Við æfum fimm daga vikunnar, bæði á skíðum og í tækjasal auk þess sem við syndum. Við förum einnig á nokkur mót áður en við förum til Sochi."

Erna keppir á mónóskíðum og á að keppa í svigi 14. mars og stórsvigi tveimur dögum síðar en leikarnir standa 7. – 16. mars.

Hún þekkir það þó af reynslunni frá Vancouver að ýmislegt getur breyst í skipulagi á vetrarleikum. „Það þurfti að breyta öllu skipulagi þar því það rigndi svo mikið. Ég átti að keppa í lok leikanna en var send af stað fljótlega eftir að við komum til Kanada."

Erna verður í Bandaríkjunum í mánuð og kemur svo heim í stutt vetrarfrí áður en hún fer aftur utan til lokaundirbúnings fyrir leikana. Hún hefur í haust æft á Egilsstöðum undir handleiðslu Heiðar Vigfúsdóttur, þjálfara hjá Skíðafélaginu Stafdal.

Heiður segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar tækifærið gafst til að vinna með Ernu og ber henni vel söguna.

„Hún hefur metnaðinn og viljann til að ná langt því hún er alltaf til í að þyngja æfingarnar. Ég er með henni í tvo tíma á æfingum og þá á hún eftir að klára."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.