Karfa: Frisco tryggði Hetti sigur á Þór á lokasekúndunum í blóðugum slag

karfa hottur stjarnan bikar 0039 webHöttur gerði góða ferð norður á Akureyri í gær og lagði lið Þórs í 1. deild karla í körfuknattleik.  Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Frisco Sandidge tryggði Héraðsmönnum sigurinn á síðustu sekúndum leiksins. Fyrr í leiknum hafði einn leikmanna Hattar þurft að yfirgefa völlinn alblóðugur eftir að hafa lent illa í leikmann Þórs.
Fyrir leikinn voru Þórsara efstir í deildinni og ósigraðir í sex leikjum, en Hattarmenn höfðu unnið þrjá leiki og tapað jafn mörgum.

Framan af leik voru heimamenn með frumkvæðið en með góðum kafla undir lok annars leikhluta náði Höttur forystunni og leiddi í hálfleik 39-43. Sama baráttan hélt áfram í þriðja leikhluta og staðan að honum loknum var 61-66.

Í lokaleikhlutanum var mikið um mistök á báða bóga og taugarnar þandar til hins ítrasta. Þegar 9 sekúndur voru eftir skoraði Frisco Sandidge tveggja stiga körfu og kom Hetti yfir í 75-76. Þórsarar áttu lokaskotið en það geigaði og Höttur fagnaði miklum baráttusigri.

Eins og fram kom var baráttan í aðalhlutverki og ekki alltaf boðið upp á áferðarfallegan körfubolta, en þó mátti sjá glæsileg tilþrif inni á milli hjá báðum liðum. Hápunktur baráttunnar var þegar Hreinn Gunnar Birgisson leikmaður Hattar varð af yfirgefa völlinn alblóðugur eftir þungt högg frá Birni Benediktssyni, fyrrum leikmanni Hattar og var augljóst að Hreinn var ekki sáttur við framgöngu hans.

Frisco Sandidge og Austin Magnús Bracey fóru fyrir liði Hattar. Frisco skoraði 29 stig og tók 12 fráköst en Austin bætti við 26 stigum. Í liði Þórs var Jarel Crayton með 22 stig, Ólafur Ingvason setti 21 stig og Sindri Davíðsson var með 17 stig og 4 stolna bolta.

Nánari umfjöllun um leikinn ásamt myndasafni má sjá hér á karfan.is.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.