Blak: Við getum unnið Aftureldingu síðar á tímabilinu
Kvennalið Þróttar í blaki tapaði fyrir Aftureldingu í toppslag Mikasa-deildar kvenna á laugardag. Þjálfari liðsins segir leik þess of sveiflukenndan. Vinna þurfi að úrbótum á æfingum.Afturelding var í efsta sæti deildarinnar fyrir leikinn og hafði ekki tapað hrinu það sem af var vetri. Leikurinn var afar spennandi og tók yfir tvo tíma að knýja fram úrslitin.
Gestirnir unnu fyrstu hrinuna 23-25 en Þróttur næstu tvær 25-15 og 25-22. Þá hrundi hins vegar leikur Þróttar og liðið tapaði hrinunum 10-25 og oddahrinunni 10-25.
„Liðið spilar of illa þegar hlutirnir ganga ekki alveg upp, við þurfum að minnka sveiflurnar í spilinu með því að lyfta upp botninum," segir þjálfarinn, Matthías Haraldsson.
„Þetta var hörku leikur sem við hefðum vissulega viljað vinna. Við sáum samt að við getum unnið Aftureldingu og ætlum okkur að gera það seinna á tímabilinu. Þegar við spilum vel og hlutirnir ganga upp er erfitt að stoppa okkur.
Einnig gerum við of mikið af dýrkeyptum mistökum á slæmum tímapunktum sem kosta einfaldlega leiki þegar liðin eru jöfn. Við lærum af þessum leik og vitum hvað við þurfum að gera til að vinna."
HK notaði tækifærið og skaust upp í annað sætið. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir átti stórleik í liði Þróttar og skoraði 33 stig.