Sigurður Haralds: Ef maður hefði látið það eftir sér að hætta hefðu sömu strengirnir alltaf komið aftur

sigurdur haraldsson leiknismadur 0030 webLeiknismaðurinn Sigurður Haraldsson segir aldrei of seint að byrja að æfa íþróttir. Hann lagði skóna á hilluna um þrítugt en dró þá aftur fram um sjötugt og hefur síðan orðið heims-, Evrópu- og Norðurlandameistari í frjálsíþróttum.

„Ég byrjaði á ný að æfa þegar ég varð sjötugur og þetta er alltaf jafn gaman," segir Sigurður í viðtali í nýjasta tölublaði Snæfells, tímarits UÍA.

Sigurður segir þar frá uppvaxtarárum sínum á Fáskrúðsfirði þar sem hann stundaði íþróttir með Leikni. Þrátt fyrir að hafa flutt frá staðnum og lagt íþróttaskóna á hilluna keppir hann enn undir merkjum félagsins og var fyrir nokkrum árum útnefndur heiðursfélagi.

„Ræturnar eru þar sem barn breytist í ungling og unglingur í fullorðinn mann. Það hefur aldrei komið til greina að skipta um félag. Það væru bara landráð í mínum huga.

Ég er þeirrar skoðunar að íþróttamaðurinn sé fyrir félagið. Á Fáskrúðsfirði vorum við aldir upp við að standa að uppbyggingu félagsins. Ég hef aldrei farið fram á neitt frá félaginu og tel mig ekki hafa neinar kröfur á það.

Í dag virðast margir íþróttamenn telja sig eiga kröfur á félögin. Ég tel það vera misskilning því félagið er ekkert meira en við. Ef við erum ekki að gera hlutina þá gerir félagið ekkert."

Samkeppnisforskot að vera yngstur í aldursflokknum

Eftir að Sigurður hætti að vinna fór hann að æfa með öldungahópi sem hittist í Laugardal og stundar þar frjálsíþróttir 4-5 sinnum í viku. Fyrstu æfingarnar voru erfiðar en Sigurður komst yfir múrinn.

„Maður fékk náttúrulega strengi en hélt áfram og djöflaðist þar til þeir voru farnir. Það þarf að fara í gegnum ákveðið tímabil. Ef maður hefði látið það eftir sér að hætta hefðu sömu strengirnir alltaf komið aftur. Ég hef aldrei fundið fyrir harðsperrum síðan, þótt ég væri að keppa í mörgum greinum á dag."

Sigurður fór að fylgja félögum sínum á mót erlendis og hefur þar gengið vel. Hann hefur tekið þátt í um 20 alþjóðlegum mótum á síðustu átta árum. Síðan hefur Sigurður náð í þrettán Norðurlandatitla, auk heimsmeistaratitils í lóðakasti og Evrópumeistaratitils í kringlukasti. Þá er ótalinn fjöldi annarra verðlauna frá þessum mótum.

„Ég hef fengið mikla ánægju út úr þessum mótum og góða heilsu. Ég held að það sé mjög dýrmætt að halda áfram að byggja sig upp. Maður verður að reyna á sig og finna hvar maður stendur. Það er ekki minna spennandi þegar maður er kominn á þennan aldur. Maður hefur markmið og vill ná árangri."

Framundan er 85 ára afmælið í þessum mánuði sem þýðir að á nýju ári verður Sigurður á yngsta árinu í aldursflokki 85-89 ára. „Ég verð 85 ára í janúar og mér líður ekki þannig. Ég sætti mig ekki við þessa tölu en ég veit að hún er rétt!"

Þegar menn eldast veitir það forskot að vera yngstur í sínum flokki. „Það munar miklu hvort maður er 80 eða 84 ára. Við þann aldur fara menn að missa snerpu og tækni. Ég myndi halda að ég væri búinn að tapa að minnsta kosti 20-30% styrk frá því ég var 80 ára, sem sést á árangrinum. Þetta er bara lögmálið um hana Elli kerlingu. En það hlakka allir til að komast upp í nýjan flokk, þá verða þeir bestir."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar