Blak: Jóna Guðlaug sá um Stjörnuna

blak throttur hk urslit 02042013 0004 webJóna Guðlaug Vigfúsdóttir átti stórleik og skoraði 36 stig þegar Þróttur Neskaupstað lagði Stjörnuna 1-3 í fyrsta leik sínum eftir jólafrí í Mikasa-deild kvenna í blaki á laugardag. Þjálfarinn segir fríið hafa verið heldur langt og leikur liðsins borið þess merki.

Stjörnuliðið byrjaði betur og vann fyrstu hrinuna 27-25 en Þróttur svaraði strax og vann þá næstu 11-25. Þriðja hrinan var jöfn þar til staðan var 21-21 en Norðfjarðarliðið kláraði hana með fjórum stigum í röð. Fjórða hrinan spilaðist svipað en Þróttur vann hana eftir upphækkun, 26-28.

Þróttur lék síðast um miðjan desember og hefur því verið rúman mánuð í jólafríi. Í samtali við Austurfrétt eftir leikinn sagði Matthías Haraldsson, þjálfari liðsins, að gott hefði verið að spila aftur „eftir alltof langa pásu."

Spilamennska liðsins bar þess merki að hans mati. „Við vorum sérstaklega í vandræðum með uppgjafir og móttöku en aðrir þættir leiksins voru heldur ekki til að hrópa húrra fyrir."

Í raun hafi Jóna Guðlaug haldið sóknarleiknum „á floti". Fleiri leikmenn þurfi að skora stigin en Erla Rán Eiríksdóttir var næst stigahæst með ellefu stig.

Matthías segir Stjörnuna hafa spilað vel og látið Þrótt hafa fyrir sigrinum. Stigin þrjú hafi skilað sér í hús og það verið mikilvægast. Þróttur er í þriðja sæti deildarinnar en hefur aðeins spilað sjö leiki meðan HK og Afturelding, sem eru fyrir ofan, hafa lokið 9 og 10 leikjum.

Þróttur spilar um helgina í annarri umferð bikarkeppninnar í blaki en í henni leikur liðið þrjá leiki um laust sæti í undanúrslitum. Matthías fagnar þeim leikjum. „Þar fáum við gott tækifæri til að spila liðið saman fyrir komandi átök."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.