Körfubolti: Mikilvægur sigur hjá Hetti

karfa hottur breidablik jan14 0010 webHöttur situr í þriðja sæti 1. deildar karla í körfuknattleik eftir góðan heimasigur á Fjölni á föstudag. Lokamínúturnar í leiknum voru æsispennandi og Andrés Kristleifsson reyndist betri en enginn þegar á reyndi.
Fyrir leikinn voru bæði lið með 14 stig og í harðri keppni um sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Leikurinn var jafn frá upphafi til enda og ekki laust við að taugaspennu gætti hjá báðum liðum en baráttan og varnarleikurinn var í fyrirrúmi.

Að loknum fyrsta leikhluta var staðan jöfn 17-17 en gestirnir úr Grafarvogi náðu frumkvæðinu í öðrum leikhluta og leiddu 34-39 í hálfleik. Í síðari hálfleik var boðið upp á meira af því sama og jafnt á öllum tölum. Munaði þar mestu um að heimamönnum var, þrátt fyrir afbragðs varnarleik, nærri ómögulegt að stíga Fjölnismenn frá körfunni og náðu þeir að hirða alls 18 sóknarfráköst í leiknum á móti 9 hjá Hetti. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 53-55.

Í lokaleikhlutanum náðu Hattarmenn, sem voru vel studdir af áhorfendum, tökum á leiknum og komust yfir án þess þó að hrista gestina nokkurn tíma af sér. Síðbúin atlaga Fjölnis dugði ekki til þótt litlu mætti reyndar muna að Hattarmenn töpuðu boltanum þegar þeir leiddu með tveimur stigum og um 15 sekúndur eftir af leiknum.

Andrés Kristleifsson sýndi þá mikið snarræði, endurheimti boltann og kom sér á vítalínuna þar sem hann setti niður bæði vítin. Eysteinn Ævarsson stal síðan boltanum af Fjölnismönnum og leikurinn þar með í höfn. Lokatölurnar 72-67 og Hattarmenn þannig einir í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Þór á Akureyri sem höfðu eins stigs sigur á Hamri á sama tíma og héldu þannig öðru sætinu.

Austin Magnús Bracey fór fyrir Hattarmönnum í leiknum og skoraði 26 stig en Gerald Robinson var með 20 stig og 8 fráköst.

Helstu stjörnur Fjölnis, þeir Daron Sims og Ólafur Torfason náðu sér alls ekki á strik í sóknarleiknum og munar um minna en Sims skoraði 11 stig en tók 15 fráköst og Ólafur var með 10 stig og 8 fráköst. Stigahæstur Fjölnismanna var Róbert Sigurðsson með 16 stig.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.