Keppir í módelfitness í Los Angeles: Markmiðið að sigra sjálfa sig

maria lena olsen fitness tara webEgilsstaðabúinn María Lena Olsen keppir í módelfitness í Los Angeles í Bandaríkjunum á laugardag. Að baki er langur og strangur undirbúningur sem tekið hefur hátt í ár og krefst gríðarlegs sjálfsaga. Hún hlakkar til uppskerunnar á laugardag.

„Ég var búinn að vera í fimleikum, fótbolta og frjálsum en komin með leið á því öllu og langaði að prófa eitthvað nýtt. Eitt af því sem heillaði mig við fitnessið er hversu ótrúlega krefjandi það er," segir María Lena um ástæðurnar fyrir að hún fór að leggja stund á módelfitness.

Ferð hennar hófst um síðustu helgi þegar hún flaug út til Boston. Þaðan lá leiðin til í heimsókn til Charlotte en keppnin sjálf fer fram í Los Angeles á laugardag.

„Það er leitað eftir sterkum, hraustum og íþróttamannslegum líkama sem samsvarar sér vel. Ekki of grönnum og ekki of vöðvastæltum," segir María.

Þarft að vera 150% í þessu

María Lena keppir í Team Edge sem stýrt er af Ingrid Romero, fyrrum fitness-keppanda og eiginmanni hennar, Joe DiScuillo sem þjálfaði hana áður. Ingdrid var sigursæl í greininni en ákvað að hætta að keppa sjálf eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn og kom þá liðinu á fót.

Ingrid kom til Íslands síðla árs 2012 og kom þá meðal annars fram í viðtali í Íslandi í dag. María hafði þá verið í tölvupóstsamskiptum við hana en ákvörðunin um keppnina í Bandaríkjunum var tekin í kjölfar heimsóknarinnar.

„Ég hef lengi fylgst með þeim bestu erlendis því mér finnst það hvetjandi og uppörvandi. Ég var búinn að vera í samskiptum við hana og sótti fyrirlestur sem hún hélt við komuna hingað og heillaðist þá endanlega.

Hún spurði mig hvort ég vildi koma út og ég sagði strax já. Ég ákvað að klára fyrst framhaldsskólann og fara svo að æfa á fullu.

Æfingarnar krefjast mikils aga, maður þarf eiginlega að vera 150% í þessu. Ég æfi sex sinnum í viku, eina æfingu á dag og hugsa mikið um matarræðið. Ég borða sex sinum á dag hollan mat, svo sem kjúkling, fisk, brún hrísgrjón og grænmeti og drekk 3,8 lítra af vatni.

Þremur mánuðum fyrir mót byrjar síðan keppnisundirbúningurinn til að ná fram skurðinum í vöðvunum. Þá minnka aðeins matarskammtarnir og svo byrjaði ég í brennslu 2-3 vikum fyrir mót."

Hún viðurkennir að erfitt hafi verið að forðast allar freistingarnar í jólahátíðinni. „Maður leyfi sér aðeins enda eru jólin bara einu sinni á ári. Það tók á að halda sig við áætlanirnar en það borgar sig."

Gott sæti opnar frekari tækifæri

Keppnin sjálf felst fyrst og fremst í samanburði á sviði. „Á keppnisdag fáum við passa sem segir að við séum keppendur. Síðan fáum við tösku fulla af dóti sem nýtist okkur í keppninni, meðal annars númer sem við nælum á bíkiníið.

Í keppninni erum við kölluð inn eftir númerum og þá stígur maður inn á sviðið, réttir upp höndina til að heilsa dómurum og áhorfendum og gengur síðan eina ferð fram og til baka eftir sviðinu. Síðan fer maður aftast á sviðið og stendur í línu með öllum hinum keppendunum.

Eftir að þeir hafa verið kallaðir fram einn af öðrum eru 5-7 stelpur kallaðar fram í einu og bornar saman þar til dómararnir segja okkur að fara."

Keppt er eftir hæðarflokkum og í lokin er opinn flokkur þar sem sigurvegarar hvers hæðaflokks eru bornir saman. Segja má að keppnin á laugardag sé forkeppni en þeim sem gengur vel í slíkum keppnum gefst kostur á að gerast atvinnumenn í greininni.

„Þú þarft að lenda í góðu sæti á mótinu til að fá leyfi til að keppa á stærri mótum. Ef þú kemst á stærri mótin geturðu unnið þér inn atvinnumannakort og þar með ertu orðinn atvinnumaður í greininni."

María Lena leggur sjálf út fyrir ferðalaginu núna en hún safnað styrkjum til ferðarinnar frá fyrirtækjum á Austurlandi. „Þetta er dýrt, sérstaklega fyrir nýliða þegar maður þarf að greiða allt sjálfur. Um leið og maður fer að afreka eitthvað fara peningarnir að koma til manns líkt og í fleiri íþróttagreinum."

Ætlar að njóta keppninnar

María Lena hefur síðustu mánuði stundað einkaþjálfaranám í fjarnámi frá Bandaríkjunum. Öll æfingaáætlun hennar og mataráætlanir koma að utan í tengslum við keppnina.

Hún segist hafa áhuga á að auka hreyfingu kvenna og að fitnessið, sem einnig er nefnd hreysti á íslensku, sé ein leiðin til þess. Hún hvetur þá sem hafa áhuga á hreystinni að finna sér reyndari iðkendur til stuðnings áður en af stað sé farið.

„Það er mikil fræðsla á bakvið þetta, meðal annars um vöðvafræði, að gera æfingarnar rétt og að fara ekki út í öfgar. Það verður að passa hausinn og hugsa rétt. Það er auðvelt að fara í flækju og verða óánægður með sjálfan sig, líkt og í fleiri íþróttagreinum."

Í bili er María með fókusinn á keppninni um helgina. „Ég stefni á að njóta keppninnar, gera mitt best og öðlast reynslu. Þetta snýst um að sigra sjálfan sig. Maður ræður ekki ástandinu á öðrum keppendum."

Mynd: Tara Ösp Tjörvadóttir
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar