María Lena varð þriðja í fitness: Ógleymanleg reynsla
María Lena Olsen varð þriðja í keppni í módelfitness í Bandaríkjunum um helgina. Hún segir keppnina hafa verið frábæra reynslu. Framhaldið er óákveðið en árangurinn veitir henni frekari keppnisréttindi.„Þetta hefur verið ógleymanleg reynsla sem mun seint gleymast," sagði María Lena eftir keppnina.
Hún varð í þriðja sæti í hæðarflokki C í GNC 2014 NPC - Gold Cost Muscle Classic keppninni sem haldin var í Los Angeles.
Mótið var eins konar forkeppni fyrir stærri mótaröð. Árangur Maríu Lenu veitir rétt til að keppa á stærri mótum í Bandaríkjunum en hún fær ekki atvinnumannakortið svokallaða því hún er ekki bandarískur ríkisborgari. Hún getur hins vegar valið að reyna fyrir sér á mótum í Evrópu.
Hún segist þakklát fjölskyldu sinni, vinum og þeim sem styrktu hana í að komast í keppnina fyrir stuðninginn.
Við tekur nokkurra daga hvíld en síðan halda „járnrífingarnar" áfram. „Framhaldið er ekki komið í ljós en það er spennandi!"