Bjarki Odds: Strákarnir voru með hausinn lengst uppi í rassgatinu á sér

karfa hottur thorak 03032014 0052 webBjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs Akureyri, var óhress með spilamennsku síns liðs eftir 71-70 ósigur fyrir Hetti í dramatískum leik á Egilsstöðum í kvöld. Hann gat þó glaðst yfir frammistöðunni í seinni hálfleik sem skilaði næstum því sigri.

„Ég er rosalega ánægður með strákana fyrir að koma til baka. Þeir voru með hausinn lengst uppi í rassgatinu á sér í fyrri hálfleik. Ég veit ekki hvað þeir voru að gera. Það er ótrúlegt að Höttur hafi ekki verið tuttugu stigum yfir í hálfleik miðað við hvernig við spiluðum," sagði Bjarki í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

Höttur var 35-25 yfir í hálfleik og með yfirhöndina allt fram í fjórða leikhluta. Þá tókst Þórsurum loks að jafna fram að síðasta skoti leiksins skiptust liðin á forustunni.

„Við náðum að berja okkur saman í seinni hálfleik. Ég tók samt enga þrusu ræðu í hálfleik, við ræddum bara málin."

Bjarki segir að sóknarleikur Þórs hafi verið stóra vandamálið. „Ég fékk framlag frá of fáum leikmönnum og það hefur dálítið verið þannig í vetur. Mér fannst Hattarliðið samt ekkert rosalega gott í kvöld. Ég veit að þeir hafa átt betri leiki."

Þórsarar voru tveimur stigum yfir þegar fjórar sekúndur voru eftir en Hattarar náðu snöggri sókn sem lauk með magnaðri þriggja stiga körfu Andrésar Kristleifssonar um leið og lokaflautið gall.

„Ég samgleðst Andrési. Ég er mikill aðdáandi hans og þetta var frábært skot," segir Bjarki, sem um tíma lék með Hetti.

Aðspurður að því hvort lið hans hefði ekki átt að hanga á forskotinu sem það hafði þegar fjórar sekúndur voru eftir svaraði hann hreinskilnislega: „Að sjálfsögðu, að sjálfsögðu."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar