Erna lögð af stað til Sotsjí

sochi 13032014 1 webSkíðakonan Erna Friðriksdóttir er lögð af stað til Sotsjí í Rússlandi þar sem hún keppir á Ólympíuleikum fatlaðra síðar í mánuðinum. Hluti íslenska hópsins kom á áfangastað í gær.

Íslensku ólympíufararnir Erna og Jóhann Þór Hólmgrímsson lögðu í gær af stað frá Denver í Bandaríkjunum ásamt tveimur bandarískum þjálfurum. Þau fljúga í gegnum Frankfurt í Þýskalandi og Istanbúl í Tyrklandi á leið sinni til Rússland.

Þangað eru þau væntanleg eldsnemma í fyrramálið. Þau fara beint upp í Ólympíuþorpið en íslenski hópurinn er staðsettur í fjallaþorpinu á Krasnaya Polyana-svæðinu í fjöllunum ofan við Sochi-borg. Hún er sjálf við strönd Svartahafs. Nokkur Ólympíuþorp eru á svæðinu, staðsett sem næst keppnissvæðum viðkomandi keppenda.

Liðin eru boðin formlega velkomin í þorpin með móttökuathöfn með fánahyllingum og skemmtiatriðum. Fulltrúar landanna og borgarstjórar þorpanna skiptast á gjöfum en hvert þorp á sinn eigin borgarstjóra.

Auk keppendanna tveggja og þjálfara þeirra eru tveir aðstoðarþjálfarar og aðalfararstjóri frá Íþróttasambandi fatlaðra í Sotsjí. Norðurlöndin vinna saman undir hópnum „Five Nations One Team" en alls eru níu íþróttamenn frá löndunum staðsettir í fjallaþorpinu.

Leikarnir sjálfir verða settir með opnunarhátíð á föstudag þar sem íþróttamennirnir ganga inn á Ólympíuleikvanginn.

Erna keppir í svigi föstudaginn 14. mars og í stórsvigi síðasta dag leikanna, sunnudaginn 16. mars.

Myndir frá Sotsjí, úr Ólympíuþorpinu og í Krasnaya Polyana nokkur hundruð metrum neðar. Myndir: Jón Björn Ólafsson/Íþróttasamband fatlaðra

sochi 13032014 2 web
erna fridriksdottir nov13

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar