Íþróttir helgarinnar: Erna verður fánaberi Íslands í kvöld
Skíðakonan Erna Friðriksdóttir verður fánaberi Íslands í kvöld á setningarathöfn vetrarólympíumóts fatlaðra í Sotsjí í Rússlandi. Körfuknattleikslið Hattar tekur á móti Augnabliki og keppni hefstí Lengjubikarnum í knattspyrnu.
Setningarathöfnin hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Erna tekur þátt í sínu öðru móti en hún var eini íslenski keppandinn í Vancouver árið 2010.
Íslensku keppendurnir komu til Sotsjí árla á miðvikudagsmorgun og voru þá boðnir velkomnir í fjallaþorp ólympíumótsins með athöfn þar sem íslenski þjóðsöngurinn var leikinn á meðan fáninn var dreginn að húni.
Körfuknattleikslið Hattar tekur á móti Augnabliki í næst síðustu umferð fyrstu deildar karla í körfuknattleik klukkan 18:30 í kvöld. Höttur berst við Fjölni og Þór Ak. um 2. – 3. sæti deildarinnar sem veita heimaleikjarétt í undanúrslitum.
Fyrir leiki kvöldsins er Höttur í fjórða sæti með 22 stig en á leik til góða á bæði Þór og Fjölni. Liðið stendur einnig best að vígi í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða og verður því efst ef þau enda jöfn að stigum. Augnablik er á móti neðst í deildinni án stiga.
Keppni í Lengjubikar karla í knattspyrnu hefst á sunnudag með tveimur leikjum. Huginn mætir Sindra klukkan tvö og Fjarðabyggð Hetti klukkan fjögur. Báðir leikir eru í Fjarðabyggðarhöllinni.
Til stóð að Einherji léki í kvöld gegn Hetti og Fjarðabyggð á morgun en leikjunum var frestað vegna óvissu um hvort Vopnfirðingar kæmust aftur heim til sín fyrr en á þriðjudag vegna fækkunar mokstursdaga Vegagerðarinnar.
Bikarmóti á skíðum fyrir 14-15 ára sem halda átti í Stafdal um helgina hefur verið frestað vegna óvissu um færð og veður.
Mynd: Jón Björn Ólafsson