Ungu strákarnir fengu að spreyta sig í stórsigri á Augnabliki – Myndir
Hattarmenn notuðu tækifærið í síðasta heimaleik sínum í deildarkeppninni í vetur til að leyfa þeim leikmönnum sem minna hafa spilað í vetur til að spreyta sig. Mótherjinn í kvöld var neðsta lið deildarinnar, Augnablik, sem er stigalaust og Höttur vann stórsigur, 115-71.Leikmenn eins og Austin Bracey, Gerald Robinson og Eystein Bjarni Ævarsson spiluðu allir 15 mínútur eða minna í kvöld en þeir spila vanalega hátt í fjörutíu. Þeir nýttu mínúturnar samt vel. Austin varð stigahæstur með 22 stig og Eysteinn Bjarni skoraði 21.
Í raun var mínútunum nokkurn vegin skipt jafnt á milli þeirra tíu leikmanna sem voru á leikskýrslu Hattar í kvöld og þeir skiluðu allir sínu í formi stiga, stoðsendinga og frákasta.
„Við vorum búnir að tala um að við þyrftum að fá fleiri til að leggja í púkkið. Menn spiluðu fyrir liðið en voru ekki að hugsa um eigið framlag," sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í leikslok.
Ívar Karl Hafliðason, sem lítið sem ekkert hefur spilað í vetur, lék í rúmar átta mínútur í kvöld. Hann hefur samt stórt hlutverk í hópnum.
„Við höfum ekki tapað þegar hann er í hóp. Hann var valinn í hópinn gegn Þór í vikunni þrátt fyrir að hafa ekki mætt á æfingar í tvær vikur. Andlegi þátturinn skiptir máli og Ívar er mikilvægur í klefanum þótt hann sé ekki besta skytta í heimi."
Í hópi þeirra sem vermt hafa bekkinn í vetur er Sigmar Hákonarson. Hann skoraði í kvöld 15 stig og sendi fimm stoðsendingar. Hann hefur samt átt erfitt uppdráttar í vetur vegna meiðsla. Hann segist ánægður með að hafa fengið 27 mínútur í kvöld.
„Leikform er alltaf en æfingaform. Adrenalínið bætist við þegar þú spilar. Mér þykja tíu mínútur í leik erfiðari en klukkutíma æfing.
Ég er ánægður með leikinn í kvöld. Ég hefði viljað spila meira í vetur en ég vona að ég sé orðinn klár fyrir úrslitakeppnina."
Fyrir lokaumferðina eru Höttur og Fjölnir jöfn í þriðja sæti með 24 stig en Þór í öðru tveimur stigum á undan. Þessi tvö sæti veita heimaleikjarétt í undanúrslitum deildarinnar.
Höttur hefur betur í innbyrðisviðureignum en á erfiðan leik gegn Tindastóli á Sauðárkróki eftir viku. Sauðkrækingar unnu deildina með yfirburðum og töpuðu aðeins sínum fyrsta leik í kvöld.
„Við ætlum á Krókinn og vinna," segir Viðar. „Við verðum að gera það ef við ætlum að eiga heimaleikjarétt. Ef við gerum það ekki föllum við líklega í fjórða sætið."