Erna Friðriks: Mikill heiður að fá að vera fánaberi
Skíðakonan Erna Friðriksdóttir segir það hafa verið mikinn heiður að vera fánaberi Íslands á setningarathöfn vetrarólympíuleika fatlaðra í Sotsjí í Rússlandi á föstudag. Vikan fer í undirbúning fyrir keppnina á föstudag.„Ég tók ekkert sérstaklega mikið eftir fánanum því hann var hengdur á hjólastólinn minn. Það var hins vegar frábær tilfinning að fara fyrir íslenska hópnum inn á völlinn og fá þann heiður að vera fánaber," sagði Erna í samtali við Austurfrétt í gær.
Hún segist hafa fengið töluverð viðbrögð frá vinum og kunningjum heima á Íslandi eftir athöfnina. „Ég hef orðið vör við að fólk fylgist með þessu því sýnt var frá setningunni í sjónvarpinu."
Erna kom til Rússlands á miðvikudag en keppir ekki fyrr en í hádeginu á föstudag. Tíminn er nýtt til undirbúnings.
„Við erum á æfingum í fjallinu og léttum æfingum í ræktinni og leggjum áherslu á tæknina. Við fáum ekki að prófa sjálfa keppnisbrautina en við skoðum hana áður en keppni hefst á föstudaginn."
Foreldrar Ernu, Friðrik Guðmundsson og Margrét Gunnarsdóttir, eru með henni úti í Sotsjí. Íslenski hópurinn er í fjallaþorpinu, um 60 km frá Sotsjí.
Hlýtt er í borginni sjálfri og loftslag þar sem minnir á gott íslenskt sumarveður. Öllu svalara er í fjallaþorpinu sjálfu þaðan sem skíðalyftan er tekin upp á keppnissvæðið þar sem er nægur snjór.
Íslensku keppendurnir, Erna og Jóhann Þór Hólmgrímsson, ásamt foreldrum sínum í Sotsjí. Mynd: Jón Björn Ólafsson