Erna Friðriks: Hefði viljað skíða af meiri ákveðni
Erna Friðriksdóttir, úr Skíðafélaginu Stafdal, varð í gær fyrst Íslendinga til að ljúka keppni í alpagreinum á vetrarólympíumóti fatlaðra þegar hún varð í níunda sæti í svigkeppni sitjandi kvenna í Sochi í Rússlandi. Hún segir aðstæður í brautinni hafa verið afar erfiðar.„Brautin var frekar hörð og grafin. Ég held ég hafi ekki verið alveg viss um hvernig ég átti að höndla þær aðstæður," sagði Erna í samtali við Austurfrétt.
Alls hófu ellefu keppendur keppni en níu kláruðu báðar ferðir. Erna féll í byrjun seinni ferðar en fór ekki út úr brautinni og gat klárað ferðina. Hún fór ferðirnar tvær samanlagt á 3:10,30 mín en þýski sigurvegarinn á 2:14,35.
„Mér fannst þetta ganga þokkalega. Ég hefði viljað skíða þetta aðeins beinna og af meiri ákveðni á köflum."
Erna keppir aftur á sunnudag í stórsvigi á síðasta degi leikanna. „Ég er mjög spennt og hlakka til sunnudagsins."
Myndir: Íþróttasamband fatlaðra/Jón Björn Ólafsson