Körfubolti: Höttur datt niður í fjórða sætið fyrir úrslitakeppnina

karfa hottur tindastoll 0099 webHöttur leikur gegn Þór Akureyri í úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfuknattleik í rimmu þar sem Akureyrarliðið á heimaleikjaréttinn. Þetta varð ljóst eftir tap Hattar gegn Tindastóli í síðustu umferð deildarinnar á föstudagskvöld.

Fyrir umferðina börðust Þór, Breiðablik og Höttur um 2. – 4. sætið þar sem annað og þriðja sætið veita heimaleikjarétt í undanúrslitum deildarinnar. Fjölnir vann sinn leik og skaust upp í annað sætið á meðan Þór og Höttur tapaði.

Egilsstaðaliðið lék á Sauðarkróki gegn deildarmeisturum Tindastóls sem höfðu undirtökin allan leikinn og unnu að lokum 97-77. Hattarmönnum tókst illa að leysa pressuvörn heimamanna og komust ekki í takt við leikinn.

„Tindastóll voru bara sterkari á öllum sviðum leiksins. Við náðum ekki að gera það sem við lögðum upp með og því fór sem fór. Tindastóll klárlega með besta liðið í vetur og ég óska þeim til hamingju," sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

Þór tapaði einnig en var fyrir umferðina með tveimur stigum meira en Höttur þannig norðanmennirnir enduðu í þriðja sæti og fá Hött í heimsókn á föstudag.

Viðar hefur fulla trú á sínu liði gegn Þór og vonast eftir góðum stuðningi, líka í útileikjunum. „Mér líst ágætlega á Þórsarana, við höfum spilað oft við þá og liðin þekkjast vel. Leikirnir eru alltaf stál í stál og því má búast við flottu einvígi. Það er tilhlökkun í okkur, það er engin feluleikur um það að markmiðið í allan hefur verið að fara upp í úrvalsdeild!

Ég vona svo innilega að allir bæjarbúar mæti á heimaleikinn og þeir sem geta fylgi okkur og styðji á Akureyri. Nú fer skemmtunin að hefjast."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar