Blak: Sárt að komast ekki í úrslitaleikinn

blak throttur hk meistarar 06042013 0100 webMatthías Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Þróttar í blaki, segir það hafa verið vonbrigði að tapa gegn Aftureldingu í undanúrslitum bikarkeppninnar á laugardag og komast ekki í úrslitaleikinn. Mikilvægir leikir eru framundan um næstu helgi sem ráða því hvort liðið fái heimaleikjarétt í úrslitakeppni Íslandsmótsins.

Þróttur byrjaði leikinn betur og vann fyrstu hrinu 26-24. Afturelding, sem er efst í deildinni, tók hins vegar næstu þrjár hrinur 18-25, 21-25 og 20-25 og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum sem það tapaði gegn HK.

Matthías segir Þróttarliði hafa leikið vel en þó ekki haft við Aftureldingu. „Við byrjum mjög vel og náum að setja móttöku Aftureldingar undir mikla pressu. Eftir því sem líður á leikinn minnkaði uppgjafapressan aðeins og móttaka Aftureldingar varð betri, sem gaf þeim góðar aðstæður í sóknarleiknum og við náum ekki að stoppa þær nægilega vel í blokkinni.

Í heildina litið var leikurinn langbest spilaði leikurinn um helgina i Laugardalshöll að mínu mati. Við spiluðum góðan leik en því miður dugði það ekki til gegn mjög vel upplögðu liði Aftureldingar, sem virtist hafa klárað allt í leiknum á móti okkur."

Hann segir hafa verið „sárt" að komast ekki í úrslitaleikinn. Ekki þýði að dvelja við það. Um næstu helgi verða leiknir síðustu deildarleikirnir, sá fyrri við Aftureldingu á föstudag en sá seinni við Stjörnuna.

Úrslitakeppnin hefst á þriðjudaginn í næstu viku þar sem Þróttur mætir HK en liðin háðu harða rimmu um Íslandsmeistaratitilinn í fyrr þar sem Þróttur hafði betur. Úrslitin um helgina ráða því hvort liðið fær heimaleikjaréttinn en til að Þróttur nái honum þarf liðið að vinna báða leikina 3-1 eða 3-0.

„Við ætlum okkur að sjálfsögðu alla leið í úrslitin og halda Íslandsmeistarabikarnum hérna heima."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.