Úrslitakeppnin í blaki byrjar í kvöld: Ætlum að brosa breitt eftir leikinn
Karlalið Þróttar heimsækir Stjörnuna í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í kvöld. Liðin mættust tvisvar um helgina og hafði Stjarnan betur í báðum leikjum en Þróttarar ætla að koma fram hefndum í kvöld.„Við erum brattir fyrir leikinn og ætlum að brosa breitt eftir hann," segir þjálfarinn Hlöðver Hlöðversson.
Hann segir alla leikmenn heila og í góðu ásigkomulagi þótt stöku fingur sé aumur eftir leikina um helgina en liðin börðust þar um annað sætið í deildinni og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Stjarnan hafði þar betur, 3-1 á föstudagskvöld og 3-0 á laugardag. „Þetta var hörkuleikur á föstudag þar sem við unnum fyrstu hrinuna og vorum yfir 20-23 í númer tvö en þeir sigu síðan framúr. Leikurinn á laugardag skipti því ekki máli og núna er þetta alvöru leikur."
Þegar Austurfrétt ræddi við Hlöðver sagði hann að leikmennirnir væru að tínast í bæinn en um helmingur liðsins fór austur á milli leikjanna.
„Við ætlum að taka þetta með stæl í kvöld og tryggja okkur síðan úrslitaleikjaréttinn þegar við komum austur á miðvikudag."
Leikurinn hefst klukkan 19:30 í Ásgarði í Garðabæ.