Blak: Heimavöllurinn gefur alltaf ákveðið forskot

blak throttur hk urslit 02042013 0006 webKvennalið Þróttar í blaki hefur leik í undanúrslitum gegn HK í Neskaupstað í kvöld. Þjálfari liðsins segir sjálfstraustið mikið í hópnum eftir tvo sigra um helgina. Karlaliðið lagði Stjörnuna í fyrsta leik í undanúrslitum í gærkvöldi.

„Við hlökkum til að spila fyrir framan okkar fólk. Heimavöllurinn veitir alltaf ákveðið forskot," segir Matthías Haraldsson, þjálfari kvennaliðsins.

Liðið er búið að spila þrisvar í HK í vetur, unnið tvisvar og tapað einu sinni. Allir leikirnir hafa endað í fimm hrinum. „Eins og oft áður er það gamla góða dagsformið sem skiptir máli."

Liðið vann deildarmeistara Aftureldingar á föstudagskvöld, 2-3 eftir að hafa lent 2-0 undir í Mosfellsbæ. Með því að vinna Stjörnuna 3-0 á laugardag tryggði Þróttur sér annað sætið og heimaleikjaréttinn gegn HK.

Matthías segir leikina tvo um helgina hafa tekið á líkamlega en sérstaklega sigurinn gegn Aftureldingu hafa verið „góðan fyrir sálina. Við héldum góðri uppgjafapressu seinni hluta leiksins og þurfum að halda henni áfram. Síðan þurfum við að vanda móttökurnar til að eiga góða möguleika í sókninni."

Dagarnir eru strembnir hjá Matthíasi sem einnig spilar með karlaliði Þróttar en það vann Stjörnuna 2-3 í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum. „Munurinn á liðunum voru tvö stig í oddahrinunni. Þetta er langt í frá að vera búið þótt við höfum unnið fyrsta slaginn."

Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í undanúrslitum kemst í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.