Stjarnan tryggði sér oddaleik í Neskaupstað: Vonandi er komið munstur þannig að útileikirnir vinnast
Þrótti mistókst í gær að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmóts karla í blaki þegar liðið tapaði 1-3 fyrir Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum í Neskaupstað í gærkvöldi. Oddaleikurinn verður í Garðabæ á mánudag.Þróttur byrjaði betur og vann fyrstu hrinuna 25-18. Stjarnan svaraði hins vegar fyrir sig og tók næstu þrjár, 23-25, 16-25 og 15-25.
„Almennt gengu hlutirnir ekki nógu vel hjá okkur," segir Hlöðver Hlöðversson, þjálfari Þróttar.
„Við áttum í vandræðum með að taka á móti sterkum uppgjöfum Stjörnumanna og spila okkur út úr þeim. Eins náðum við ekki að pressa á þá með okkar uppgjöfum.
Í síðustu hrinunni stóð ekki steinn yfir steini hjá okkur. Það gekk vel hjá þeim en við vorum í brasi."
Hann segist þakklátur áhorfendum sem fylltu húsið í Neskaupstað í gærkvöldi. „Við fengum feikna flottan stuðning en framundan er einn leikur í viðbót og för. Báðir leikirnir hafa unnist á útivelli. Vonandi er það munstrið. Ef svo er þá erum við í góðum málum."
Valgeir Valgeirsson var stigahæstur í liði Þróttar með 19 stig og Matthías Haraldsson skoraði sextán. Róbert Karl Hlöðversson skoraði 17 fyrir Stjörnuna og Kristófer Björn Ólason Proppé tólf.
Kvennalið Þróttar leikur annan leik sinn við HK í undanúrslitum í Fagralundi í Kópavogi í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30. Þróttur vann fyrri leikinn 3-2 og getur tryggt sér sæti í úrslitum með sigri.
Mynd: Jón Guðmundsson