Þróttur í úrslit í Íslandsmótinu í blaki: Við erum að toppa á réttum tíma

blak throttur hk meistarar 06042013 0170 webLið Þróttar er komið í úrslit Íslandsmótsins í blaki kvenna eftir að hafa unnið HK 1-3 í seinni leik liðanna í undanúrslitum í gærkvöldi. Þjálfari liðsins segir það hafa spilað einn sinn besta leik í vetur.

„Þetta gekk eins og við lögðum upp með," segir Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar.

HK vann fyrstu hrinuna í gærkvöldi 25-22 en Þróttur svaraði strax 22-25. Í þeirri þriðju snéri Þróttur stöðunni úr 11-4 í 14-17 og leit aldrei um öxl. Hrinan kláraðist 18-25 og síðan sú síðasta 14-25.

„Liðsheildin var mjög góð og eins og við töluðum um fyrir leikinn sýndu allir sína styrkleika. Við héldum sérstaklega góðri uppgjafapressu og HK átti í miklum vandræðum með móttökuna."

Stíft hefur verið leikið í blakinu síðustu vikur. Fyrri hálfum mánuði lék Þróttur gegn Aftureldingu í undanúrslitum í bikarkeppninni, fyrir viku tvo deildarleiki og nú tvo leiki í úrslitakeppninni.

Þrír leikmenn liðsins búa í Reykjavík og æfa ekki með því að staðaldri. Leikjahrinur eru því eitt besta tækifærið sem gefst til að slípa liðið saman.

„Við erum að toppa á réttum tíma. Á köflum var þetta klárlega þetta klárlega okkar besti leikur síðan við spiluðum á Norðurlandamótinu í nóvember. Það sást glitta í spilið sem við sýndum þar og það er jákvætt fyrir rimmuna gegn Aftureldingu."

Deildarmeistarar Aftureldingar verða mótherjarnir í úrslitunum en liðin mætast fyrst í Mosfellsbæ þriðjudaginn 8. apríl. Liðin hafa mæst tvisvar á síðustu vikum og skiptu með sér sigrunum.

„Þær eru með mjög sterkt lið en við erum það líka. Það er mikil spenna í hópnum og góð stemming eftir fjóra sigurleiki í röð, þar af þrjá þeirra gegn HK og Aftureldingu."

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir skoraði 27 stig í leiknum í gærkvöld og Erla Rán Eiríksdóttir skoraði 20 stig.

Um helgina fer fram yngriflokkamót í blaki í Neskaupstað fyrir þriðja, fimma og sjötta mót. Búist er við að um 200 ungmenni mæti í bæinn til að taka þátt í mótinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar