Fyrsti leikur Hattar gegn Fjölnis í kvöld: Á þessum tíma vilja allir spila
Fyrsti leikur Hattar og Fjölnis um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik fer fram í Grafarvogi í kvöld. Þjálfari Hattar er bjartsýnn fyrir leikinn og segir sína leikmenn tilbúna í rimmuna.„Okkur líst ljómandi vel á þetta og erum spenntir fyrir verkefninu," segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Höttur sló Þór Akureyri út í tveimur leikjum í undanúrslitum en Fjölnir þurfti þrjá leiki gegn Breiðabliki.
„Við vonum að þeir séu þreyttir en þegar komið er í svona úrslitaeinvígi þá telur það ekkert þótt menn finni einhvers staðar til. Það vilja allir spila á þessum árstíma.
Við fengum heila viku og við höfum farið ágætlega yfir hlutina. Það eru allir heilir og nú er að stilla spennustigið og vera klárir þegar á reynir."
Höttur vann báða deildarleikina gegn Fjölni í vetur en það telur lítið í úrslitakeppninni. „Fjölnir er með hörkulið. Það vill keyra upp hraðann og berjast en við þurfum að vera tilbúnir í að berjast á móti þeim."
Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður í beinni útsendingu á fjolnir.is/tv.