Geir Sigurpáll tolleraður eftir sinn síðasta meistaraflokksleik – Myndband
Geir Sigurpáll Hlöðversson, leikmaður karlaliðs Þróttar í blaki, var hylltur í lok leiks liðsins gegn Stjörnunni í gærkvöldi sem varð hans síðasti meistaraflokksleikur. Þróttur tapaði oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í gær 1-3.Geir varð fimmtugur í byrjun árs og hefur nú ákveðið að taka sér frí frá meistaraflokki. Geir er vel tengdur í bæði lið. Þrír bræður hans spila með Stjörnunni og sjálfur varð hann sautján sinnum Íslandsmeistari með liðinu. Fimmti bróðirinn, Hlöðver Hlöðversson, þjálfar Þrótt.
Stjarnan vann annars leikinn 3-1 (25-19, 22-25, 25-17 og 25-11) og tryggði sér sæti í úrslitunum gegn HK.
„Við náðum okkur aldrei almennilega á strik. Við áttum fína kafla en þeir voru sterkari. Hlutirnir gengu ekki alveg upp hjá okkur þótt allir legðu sig fram," sagði Hlöðver í samtali við Austurfrétt.
Hann segist heilt yfir ánægður með tímabilið. Þetta er annað árið í röð sem Þróttur sendir lið til keppni í efst deild og í vetur varð það í þriðja sæti í deildakeppninni.
„Tímabilið hefur verið mjög skemmtilegir og menn hafa glaðir tekist á við verkefnin í vetur. Deildin hefur verið jöfn og oft hefur dagsformið ráðið því hverjir hafa sigrað. Þetta er flottur árangur þótt auðvitað hefðum við viljað fara lengra."
Hann segist hafa trú á áframhaldandi þátttöku liðsins í efstu deild. „Við erum mjög vel settir með mannskap og trúi ekki öðru en menn séu klárir í að gefa sig áfram í verkið. Það eru nokkrir sterkir á leiðinni upp en þó má alltaf bæta í hópinn."