Viðar Örn: Það voru ekki allir á vellinum að berjast fyrir Hött

karfa hottur fjolnir 04042014 0042 webDraumur Hattar um sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik rætist ekki á þessari leiktíð. Liðið tapaði 81-98 fyrir Fjölni í öðrum leik liðanna um laust sæti í úrvalsdeildinni á Egilsstöðum í kvöld. Þjálfari liðsins segir það hafa orðið því að falli að spila sem einstaklingar en ekki lið.

Leikurinn tafðist um tæpan klukkutíma þar sem leikklukka hússins bilaði fyrir leik. Eftir mikla bið var ákveðið að taka tímann upp á gamla mátann, með þremur skeiðklukkum. Tvær voru skotklukkur og ein mældi leiktímann. Þá taldi þulur leiksins niður á skotklukkunni og tilkynnti reglulega stöðuna. Klukkan komst síðan í lag eftir fyrsta leikhluta.

Leikurinn hófst á mínútu þögn til minningar um Einar Þór Jóhannsson, ungan Egilsstaðabúa sem lést á sviplegan hátt langt fyrir aldur fram um síðustu helgi. Einar Þór tengdist mörgum í liðinu sterkum böndum og ljóst er að fráfall hans lá þungt á mörgum liðsmönnum.

Hattarmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti komust í 9-2 og síðan 21-10. Boltinn gekk hratt og mikil stemming var í liðinu þar sem liðsmenn ruku upp og fögnuðu hverri körfu. Fjölnismenn söxuðu á í lok fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 21-17.

Líkt og í fyrri leiknum á þriðjudagskvöld tóku Fjölnismenn öll völd í öðrum leikhluta. Þeir spiluðu stórkostlega vörn, dekkuðu Hattarmenn stíft og gáfu fá færi á sér. Líkt og Hattarmenn fyrr fögnuðu allir stigum og inni á vellinum smelltu menn saman brjóstkössunum eftir góðar sóknir.

Hattarliðið molnaði hins vegar smátt og smátt og menn fóru að hengja haus. Fjölnismenn skoruðu 33 stig í leikhlutanum og voru 34-50 yfir í hálfleik. Helst var það Andrés Kristleifsson sem dró Hattarvagninn. Hann barðist eins og ljón, stökk ítrekað á eftir boltum til að bjarga innköstum og skoraði átján stig í kvöld.

Hattarmenn sprikluðu í byrjun þriðja leikhluta en Fjölnismenn hertu aftur tökin og voru 56-75 að honum loknum.

Gestirnir voru enn með tæplega 20 stiga forskot, 62-80 þegar sjö mínútur voru eftir af síðasta leikhlutanum. Svæðisvörn Hattar fór þá að ganga betur og Gerald Robinson hrökk í gang. Þrjár þriggja stiga körfur í röð frá Hetti löguðu stöðuna töluvert og þegar 2:17 mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í sex stig, 78-86.

Nær komust Hattarmenn ekki. Fjölnismenn stóðust áhlaupið og smátt og smátt fjaraði undan leik Hattar á ný. Fjölnismenn vissu það síðustu mínútuna að þeir væru á leið í úrvalsdeild en Hattarmenn þurfa að hefja undirbúning fyrir næstu tilraun.

Miðað við orð Viðar Arnar Hafsteinssonar, þjálfara Hattar, má búast við að einhverjar breytingar verði á leikmannahópnum fyrir næstu leiktíð.

„Við erum tíu stigum yfir þegar ákveðnir aðilar fara að hugsa um rassgatið á sjálfum sér í stað þess að spila eins og lið. Það voru ákveðnir aðilar sem fóru illa með þetta fyrir okkur í þessari úrslitaseríu."

Hann bætti við að fleira hefði verið í huga liðsmanna en leikirnir. „Við vorum með meira á bakinu í þessum leikjum en eðlilegt getur talist. Það má líkja þessu við að vera með fimmtán kíló af grjóti í bakpoka. Þetta er búið að vera erfitt en við komum bara sterkari út úr þessu."

Viðar tók undir hrós til Andrésar fyrir góðan leik. „Hann setti niður skot til að reyna að koma okkur aftur inn í leikinn en vélin var ekki smurð. Það vantaði koppafeiti.

Við vorum mögulega með stráka á bekknum sem voru tilbúnir að gefa allt og það skrifast á mig að hafa ekki teflt þeim fram. Það voru ekki allir á vellinum tilbúnir að berjast fyrir klúbbinn."

Gerald Robinson skoraði 26 stig fyrir Hött og tók 14 fráköst. Andrés Kristleifsson skoraði 18 stig og tók 8 fráköst og Austin Bracey skoraði 17 stig.

karfa hottur fjolnir 04042014 0001 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0005 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0008 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0019 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0023 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0029 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0032 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0039 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0043 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0045 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0047 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0050 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0061 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0062 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.