Þróttur vann Aftureldingu: Snérist um að hafa trú á að hægt væri að snúa leiknum við
Þróttur vann í kvöld magnaðan sigur á Aftureldingu í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í blaki 2-3 í Mosfellsbæ. Heimaliðið var yfir eftir fyrstu tvær hrinurnar. Þjálfarinn segir að þrátt fyrir erfiða byrjun hafi það aðeins verið tímaspursmál hvenær liðið myndi snúa leiknum sér í vil.„Við vorum alltaf á eftir í fyrstu tvær hrinunum og það var hreinlega eins það væri lím undir skónum hjá okkur. Kannski var þetta smá úrslitakeppnisstress en mér fannst alltaf tímaspursmál hvenær við myndum hrökkva í gang.
Það gerðum við í þriðju hrinu og spiluðum mjög vel eftir það," segir Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar.
Afturelding vann fyrstu tvær hrinurnar 25-19 og 25-15 en Þróttur svaraði 20-25, 19-25 og vann loks oddahrinuna 10-15 eftir að hafa verið 7-3 undir.
Hann segir liðið hafa spilað frábæra vörn í kvöld. „Við duttum í þann gír að boltar fóru aldrei ósnertir í gólf og það var nokkuð sem við lögðum mikla áherslu á við æfingar. Það er pirrandi þegar liðin verja erfiða bolta og skora stig í kjölfarið og brýtur niður andstæðinginn."
Matthías leggur samt áherslu á að góð liðsheild, barátta og trú á verkefnið hafi skilað sigrinum. „Eftir aðra hrinu sagði ég stelpunum að ég hefði horf á blakleik í Danmörku um helgina þar sem gestirnir voru 0-2 yfir eftir fyrstu tvær hrinurnar og búnir að jarða heimaliðið.
Það svaraði samt fyrir sig og vann næstu þrjár. Ég sagði þeim að við gætum það líka en það væri ekki hægt nema þær hefðu trú á það sjálfar."
Sigurinn var sérstaklega sætur fyrir Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur, einn af aðalmönnum Þróttar, sem varð 25 ára í dag. „Við sögðum við hana eftir leik: Þú mátt þakka okkur núna fyrir gjöfina."
Matthías notaði líka tækifærið og hrósaði áhorfendum mættu og studdu Þrótt dyggilega í Mosfellsbænum í kvöld. „Þeir voru frábærir. Án þeirra hefðum við ekki snúið þessu við."