Þriðji leikurinn um Íslandsmeistaratitilinn í blaki: Nýr leikur sem við ætlum að vinna

blak throttur afturelding 11042014 0065 webÞróttur heimsækir Aftureldingu í kvöld í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í blakinu. Þjálfari Þróttar segir liðið hafa nýtt tímann vel eftir tapið í Neskaupstað á föstudag til að undirbúa leikinn.

„Þetta er nýr leikur og við ætlum að vinna hann. Menn hafa hlaðið batteríin um helgina og farið yfir leikinn frá því á föstudag," segir Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar.

Afturelding jafnaði metin í úrslitarimmunni með 1-3 sigri í Neskaupstað þar sem Þróttarliðið átti dapran dag.

„Við þurfum að spila meira við þær, koma boltanum yfir til þeirra ef við erum í vandræðum en ekki bara gefa þeim færin. Síðan þarf að halda pressu í uppgjöfum og taka vel á móti boltanum allan leikinn en ekki í eina hrinu eða tvær."

Liðin hafa nú unnið sinn leikinn hvort á útivelli. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari en fjórði leikurinn verður í Neskaupstað eftir átta daga.

Matthías segir að vikan verði nýtt í æfingar en leikmannahóparnir tvístrast þar sem landsliðsæfingar hafa verið boðaðar um páskana. Í samtali við Austurfrétt viðurkenndi Matthías að það væri „ekki ákjósanlegt" fyrir þjálfara félagsliðs að fá landsliðsæfingarnar ofan í úrslitarimmuna.

Matthías hrósaði áhorfendum sem mættu til leiks að Varmá í síðustu viku fyrir þeirra framlag og vonast til að þeir mæti aftur. „Brottfluttir Norðfirðingar láta sín á milli vita að það sé leikur og þeir sem geta komið koma."

Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður í beinni útsendingu á Sporttv.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar