Opið í Oddsskarði fram í júní: Helmingi meiri snjór en venjulega

oddsskard skidiTil stendur að gera tilraun með að hafa skíðasvæðið í Oddsskarði opið um helgar í maí og júní. Umtalsvert meiri snjór er á svæðinu nú heldur en verið hefur.

„Það er helst verið að reyna að ná í lausatraffík ferðamanna og fá þá til að stoppa til að taka eina bunu," segir Dagfinnur Ómarsson, forstöðumaður skíðamiðstöðvarinnar.

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti nýverið að hafa lyftu 1 og topplyftu opna föstudag til sunnudags í níu helgar í maí og júní.

Ástæðan er bæði óvenju mikið snjómagn en einnig að veturinn hefur verið erfiður vegna bilana snjótroðara og óveðurs.

„Það er um þriggja metra meiri meðal snjódýpt en venjulega eða um 7 metrar núna," segir Dagfinnur og bætir við að töluverður áhugi sé á opnuninni þótt menn renni algjörlega blint í sjóinn með tilraunina.

Í bókun bæjarráðs segir að áætlaður viðbótarkostnaður sé áætlaður 3,6 milljónir króna en viðbótartekjur 1,8 milljónir.

Þá hefur Skíðafélag Fjarðabyggðar ákveðið að halda áfram með æfingar úr maí.

Á skíðasvæðinu í Stafdal verður dregið saman eftir páska en þar hvetja menn skíðafólk til að nýta sér opnunina í Oddsskarði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar