Sara Þöll: Flutti suður til að æfa við betri aðstæður
Fimleikakonan Sara Þöll Halldórsdóttir segist hafa flutt frá Egilsstöðum til höfuðborgarinnar til að geta stundað íþrótt sína við betri aðstæður. Hún segir núverandi aðstöðu á staðnum auka áhættu á meiðslum.Hin tvítuga Sara Þöll byrjaði snemma í íþróttum, æfði fimleika, fótbolta, frjálsara og skíði. Hún byrjaði 9 ára hjá fimleikadeild Hattar og segist hafa valið fimleikana fram yfir aðrar íþróttir vegna félagsskapsins og áhuga á íþróttinni. Árið 2009 var hún kosin Íþróttamaður ársins hjá Hetti fyrir framúrskarandi árangur í fimleikum.
Fyrir rúmlega ári flutti hún til Reykjavíkur til þess að æfa við betri aðstæður og byrjaði hjá fimleikadeild Stjörnunnar í Garðabæ. Mikið samstarf er á milli félaganna og hafa fimleikaiðkendur Hattar fengið að koma á æfingar hjá Stjörnunni í nokkur ár.
Sara segist hafa valið að æfa með Stjörnunni vegna góðrar reynslu af samstarfinu og einnig hafi fyrrum fimleikaþjálfari Hattar, Nicklas Ländqvist hvatt hana til þess. Hún kveðst finna fyrir miklum mun á aðstöðunni þar miða við á Egilsstöðum.
„Áhöldin heima eru ekki þau bestu og öryggið í lendingum er ekki mikið. Það er ekki hægt að halda endalaust áfram að gera ný stökk þegar aðstaðan er svona eins og hún er í dag. Þegar maður fær ekki að gera ný stökk og nær ekki frekari árangri þá missir maður áhugann".
Fimleikadeild Hattar hefur frá því hún var stofnuð fyrir um þrjátíu árum æft í íþróttahúsi Egilsstaða. Það er notað bæði til kennslu og íþróttaiðkun barna og fullorðinna og er mikil keppni um tíma í húsinu. Í Garðabæ var 3500 fermetra fimleikahús tekið í notkun vorið 2010. Sara Þöll telur að hægt sé að halda iðkendum lengur fyrir austan ef aðstaðan verður bætt, svo iðkendur taki meiri framförum og búi við meiri fjölbreytni.
„Um leið og þú byrjar að æfa ný stökk á Egilsstöðum þarftu að búa þig undir harða lendingu. Þá eru meiri líkur á meiðslum og maður er kannski hræddari við æfingarnar heldur en í Stjörnunni þar sem þú getur gert það í púðagryfju og lent á höfðinu án þess að meiða þig".
Sara fór nýverið austur á æfingu með Hetti. Hún segist hafa upplifað mikil vonbrigði við heimkomuna. „Mér fannst ég ekki geta gert neitt af stökkunum mínum þar sem ég var ekki tilbúin til að gera þau í þá aðstöðu sem er á Egilsstöðum. Ég hefði þurft mýkri lendingar til að framkvæma stökkin, en það var ekki í boði. Ég fann líka mun á líkamanum. Ég meiddist til dæmis eftir þessa æfingu í náranum vegna þess hve kalt það var í íþróttahúsinu".
Hún viðurkennir að hún hefði þurft að klæða sig betur fyrir æfinguna en þá á sama tíma verður erfiðara að gera stökkin. Sara segist ekki hafa fundið mun á þjálfurunum. „Auður Vala er mjög góður þjálfari og einnig geta aðrir þjálfarar leiðrétt ef þeir kunna stökkin sjálf".
Æfingatími fer í að stilla upp áhöldum
Sara talar um að lengi hafi það verið draumur að byggja fimleikahús. „Ég held að það hafi verið þegar Nicklas Ländqvist kom árið 2008, þegar við byrjuðum að gera ný og stærri stökk og gerðum okkur grein fyrir því hvað það var hættulegt að gera einhverja vitleysu, maður gerir alltaf eitthvað vitlaust í fyrsta skiptið þegar maður prófar ný stökk".
Á Egilsstöðum hefur verið barist fyrir fimleikahúsi undanfarin ár og talsmenn fimleikadeildarinnar benda á að hún sé löngu búin að sprengja af sér íþróttahúsið. Fimleikasalurinn er númer 2-3 í röðinni á langtíma fjárfestingaáætlun sveitafélagsins Fljótsdalshéraðs ásamt viðbyggingu við leikskóla, en fremst í röðinni er viðbygging við íþróttahúsið sem er meðal annars ætlað að hýsa nýja búningaraðstöðu.
Sara telur mikla þörf á fimleikasal sem bregðast þurfi sem fyrst við, þótt Fljótsdalshérað sé mun fámennara og ekki eins vel statt fjárhagslega og Garðabær.
„Það er búið að byggja upp frábæra aðstöðu fyrir aðrar íþróttagreinar. Ég veit að það eru margir foreldrar sem myndu fara í sjálfboðavinnu til þess að fá þessu framgengt".
Sérstakur fimleikasalur myndi bæta aðstöðu þjálfara og minnka samkeppni á milli þeirra sem vilja komast að í íþróttahúsinu. Á Egilsstöðum fer mikill tími í að undirbúa salinn, stilla upp þungum og stórum áhöldum. Þarna fer dýr tími í annað en að þjálfa. „Í Stjörnunni getur þú mætt undirbúinn og byrjað strax að kenna.
Þar sem fimleikarnir þurfa mjög mikinn tíma þá var mín upplifun sú að þeir voru ekki eins vel séðir og aðrar íþróttagreinar. Fimleikar er tímafrek íþrótt og þarf mikinn tíma og sérstaklega þegar það tekur langan tíma til að byggja upp og ganga frá áhöldum".
Myndi fimleikahús minnka spennu milli íþróttagreina á Egilsstöðum?
Hún upplifir annað andrúmsloft í Garðabæ. Þar búi sérhver íþróttagrein sem stunduð er innan Stjörnunnar við góða aðstöðu sem stuðlar að jákvæðni milli íþróttagreina. „Meðan allar íþróttagreinar hafa ekki viðeigandi aðstöðu þá eru meiri líkur á að spenna myndist milli greina".
Sara segist ekki hafa fundið fyrir mikilli hvatningu frá íþróttakennurum sínum í grunnskóla til að halda áfram í fimleikum. „Mun minni en til dæmis krakkarnir sem æfðu fótbolta. Ég upplifði það frá þeim að mín íþrótt væri ekki eitthvað til að skara fram úr".
Iðkendum á Egilsstöðum ráðleggur hún að halda áfram eins lengi og þeir geti við þær aðstæður sem þó eru fyrir hendi. Þeir verða þó að horfa annað til að ná enn frekari framförum. „Ef þeir ætla að ná lengra í fimleikum þá er aðstaðan á Egilsstöðum ekki boðleg eins og hún er í dag".
Viðtalið er hluti af verkefni í uppeldis- og menntunarfræðum í Háskóla Íslands