Matthías Haralds: Mér finnst að þjálfarar eigi að þakka mér og mínu liði fyrir leikinn þótt þeir tapi

blak throttur umfa 22042014 0228 webMatthías Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Þróttar í blaki, var ekki sáttur við framkomu starfsbróður síns hjá Aftureldingu í gærkvöldi sem neitaði að taka í hönd Matthíasar, dómaranna og Þróttarliðsins eftir leik eins og hefð er fyrir.

Apostol Apostolov, þjálfari Aftureldingar og fyrrverandi þjálfari Þróttar, hélt sig á bekknum, tók saman föggur sínar og harðneitaði að koma þegar þátttakendur leiksins þökkuðu fyrir sig í gærkvöldi.

Aftureldingarliðið var ósátt við tvær ákvarðanir dómaranna undir leikslok þegar Þróttur snéri fjórðu hrinunni sér í vil og tryggði sér 3-1 sigur og oddaleik í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Mér finnst að þjálfarar eigi að þakka mér og mínu liði fyrir leikinn þótt þeir tapi. Ég var ósáttur við dómgæsluna á mikilvægum tímapunkti í þriðju hrinu í leiknum fyrir sunnan en samt þakkar maður fyrir leikinn," sagði Matthías eftir leikinn.

Ákvörðunin sem mest virtist ergja Aftureldingu var þegar vörn Þróttar varði boltann þannig hann fór upp í rjáfur og hvarf sjónum gestanna á bakvið sperru og dúk. Boltinn rakst hins vegar aldrei í neitt og því létu dómararnir leikinn halda áfram. Þróttur náði boltanum, lék boltanum yfir og fékk auðvelt stig því Aftureldingarliðið var að bíða eftir dómi frekar en verjast.

„Það er kjaftæði að kvarta yfir því að boltinn hverfi sjónum. Þetta hús hefur verið notað í blakleiki í tuttugu ár og aldrei verið dæmt á bolta sem hverfur. Það eru tveir línudómarar sem sjá boltann allan tímann og dæma á hann ef hann fer í loftið," sagði Matthías og bætti við að honum hefði þótt leikurinn heilt yfir „mjög vel dæmdur."

Aðalatriðið var hins vegar spilamennska Þróttar og sigurinn. „Við spiluðum blakið sem við ætlum að spila en höfum því miður ekki sýnt í síðustu tveimur leikjum.

Við erum að spila við þær með því að koma öllum boltum yfir netið þótt það sé ekki með dúndri og höldum uppgjafapressunni og móttökunni."

Matthías segir liðið hafa gert of mikil mistök um miðbik þriðju hrinunnar, sem það tapaði en hins vegar hafi góður endir þar skipt máli fyrir fjórðu hrinuna.

„Við vorum komin langt á eftir en náðum að endurstilla hausinn og gera það sem við gerðum allan leikinn og gefa þeim ekki stigin."

Afturelding var með undirtökin seinni hluta fjórðu hrinu en í lokin snéri Þróttur taflinu sér í vil. Leikmenn hentu sér á eftir öllum boltum hvort sem þeir voru á leið í gólfið eða út af vellinum.

„Þetta er viðhorfið sem við þurfum. Við verðum að snerta alla bolta í vörninni og skófla öllum boltum yfir. Þannig náðum við fullt af stigum í fyrstu tveimur hrinunum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar