Öldungamót í blaki: Gera ráð fyrir að flytja inn uppblásin íþróttahús

blak throttur afturelding 11042014 0012 webForsvarsmenn Öldungamótsins í blaki, sem haldið verður í Neskaupstað á næsta ári, gera ráð fyrir að kaupa tvær færanlegar íþróttahallir og flytja til landsins til að geta haldið mótið. Mótið hefur tvöfaldast að stærð síðan það var síðast haldið á staðnum fyrir rúmum áratug.

Mótið er eitt stærsta íþróttamót sem haldið er á Íslandi á ári hverju. Tilkynnt er um næsta mótshaldara í lok hvers móts og um helgina kom í ljós að Norðfjörður verður gestgjafi næsta móts.

Mótið verður haldið dagana 30. apríl – 2. maí 2015 og gert er ráð fyrir um 1300 keppendum auk annarra sem þeim fylgja. Mótið var síðast haldið í Neskaupstað árið 2003 og þá voru keppendur ekki nema 600 talsins.

Til að rúma allan þennan fjölda þarf 9-12 blakvelli sem er mun meira en íþróttahús staðarins rúmar. Til að bregðast við því er gert ráð fyrir að kaupa tvö uppblásin íþróttahús til landsins og leggja ofan á gervigrasvöllinn. Hvort hús rúmar 3-4 blakvelli.

Ef illa viðrar er möguleiki á að tjalda inni í Fjarðabyggðarhöllinni. Gervigrasvellir hafa áður verið notaðir til að hýsa mótið en til þess þarf að leggja gólf ofan á grasið.

Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastjóri blakdeildar Þróttar, segir ekki ljóst hver komi til með að eiga húsin en þau geti nýst fyrir fleiri viðburði á svæðinu.

„Blakdeild Þróttar hefur í nokkur ár haft hug á að halda mótið enda blakhefðin mjög sterk í Neskaupstað en vegna smæðar íþróttahússins þá höfum við ekki getað það. Til að geta haldið það þurfum við að fara á nýjar slóðir og menn hafa verið að skoða það síðustu tvö ár að flytja inn svona hús.

Þetta mót vex með hverju ári og það eru margir spenntir fyrir að fylgjast með hvernig okkur gengur því það eru ekki margir staðir sem geta haldið þetta mót.

Þessi viðburður felur í sér fjárfestingu sem á samt sem áður að skila sér með mótsgjöldum og öðrum tekjum í tengslum við mótið. Fjarðabyggð er öll af vilja gerð til að aðstoða okkur í þessu. Við verðum í samstarfi við sveitarfélagið um að leysa salernisaðstöðu, búningsaðstöðu og slíkt í kringum völlinn. Eins verður hægt að nýta skólabyggingar og fleira fyrir blakhópa."

Þá er gert ráð fyrir að lokahóf mótsins verði haldið í íþróttahúsinu og það sæki 900 manns. Austurfrétt hefur heimildir fyrir því að bókanir hafi þegar borist um hótelgistingu.

„Manni skilst að strax á lokahófinu hafi fólk byrjað að panta hótelgistinguna í bænum," segir Unnur. Annars er gert ráð fyrir að boðið verði upp á gistingar í skólum og eins verður auglýst eftir íbúum sem vilja leigja út íbúðir sínar.

Verkefnið er vafalaust það stærsta sem blakdeild Þróttar hefur ráðist í. „Við höfum góða reynslu í mótahaldi og margar hendur vinna létt verk. Undirbúningsnefnd mun hittast bráðlega og leggja línurnar og í framhaldi óska eftir áhugasömum sjálfboðaliðum í nefndir."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.