Önnur deildin hefst á morgun: Fjórir nýir erlendir leikmenn til Hugins

fotbolti leiknir huginn webHuginn Seyðisfirði styrkti sig í vikunni fyrir átökin í annarri deild karla í knattspyrnu með fimm erlendum leikmönnum. Huginn og Fjarðabyggð hefja keppni á morgun.

Fjórir leikmannanna eru nýir en sá fimmti, Mark Nikolic, hefur leikið á Seyðisfirði síðastliðin tvö sumur við góðan orðstír. Nikolic er annar þeirra Serba sem spila munu með Huginn. Hinn er Milos Ivankovic er 26 ára gamall miðvörður sem kemur frá FK Jedinstvo Paracin.

Blazo Lalevic er þrítugur Svartfellingur sem spilar á miðjunni. Hann hefur spilað víða í Serbíu en kemur frá BSK Borca í næst efstu deild. Litháíski miðjumaðurinn Mantan Platochinas er 22ja ára gamall og kemur frá Bromley í Englandi en hann hefur einnig spilað á Kýpur og í Hollandi.

Alvaro Monteja er spænskur sóknarmaður sem kemur frá þriðju deildarlið AD Torrejon. Þá hefur Jón Kolbeinn Guðjónsson, sem síðustu ár hefur varið mark Gróttu, fengið leikheimild með uppeldisfélagi sínu.

Huginn á einmitt heimaleik gegn Gróttu á morgun klukkan 14:00. Leikurinn fer fram á Fellavelli þar sem Seyðisfjarðarvöllur er ekki tilbúinn.

Fjarðabyggð heimsækir ÍR í Breiðholtið á sama tíma. Liðið hefur fengið til sín Englendinginn Nik Chamberlain sem árum saman lék með Huginn. Félagið styrkti sig annars í vor með þremur FH-ingum, bakverðinum Emil Stefánssyni og tvíburunum Brynjari og Andra Jónassonum sem eru skæðir sóknarmenn.

Liðið missti hins vegar markvörðinn Kyle Kennedy vegna vandræða með dvalarleyfi skömmu fyrir mót. Í staðinn kom Amir Mehica sem varði mark Fjarðabyggðar 2011 og 2012.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar