Þrjátíu krakkar í frjálsíþróttabúðum hjá Þóreyju Eddu

Glæsilegur hópur UÍA ásamt Þórey Eddu

Ríflega þrjátíu krakkar víðsvegar af Austurlandi tóku þátt í frjálsíþróttabúðum sem UÍA bauð upp á um síðustu helgi. Yfirþjálfarar voru stangarstökkvarinn og ólympíufarinn Þórey Edda Elísdóttir og maður hennar, spjótkastarinn Guðmundur Hólmar Jónsson.

„Þórey Edda. Verður þú aldrei lofthrædd þegar þú svífur svona hátt upp í loftið?“ spurðu krakkarnir. Þórey Edda hafnaði því að hún yrði nokkru sinni hrædd. „Það er einstök tilfinning að svífa um lofti blá – sérstaklega ef ráin hangir upp!“

Þórey Edda kenndi krökkunum meðal annars undirstöðuatriðin í stangarstökki. Þótti sumum nokkuð hátt farið þegar þau héngu á stönginni og sveifluðust af kistu niður á dýnu. Æfingarnar voru annars fjölbreyttar og fyrirlestrar um ýmis málefni tengd íþróttaiðkun, svo sem mikilvægi hvíldar, svefns og matarræðis.

Þórey og Guðmundur áttu aukaæfingu og spjall með Úrvalshópi UÍA og ræddu við þau um mikilvægi þess að gefast ekki upp þótt á móti blási og að í íþróttum skiptist á skin og skúrir, en bæði hafa þau fengið að kynnast því og upplifað sinn skref af meiðslum á ferlinum.

Þórey og Guðmundur voru mjög ánægð frjálsíþróttakrakkana okkar sem þau sögðu hafa verið einkar áhugasöm, dugleg og að allir sem einn hefðu lagt sig fram og gert sitt besta. Aukin heldur komu þau auga á ýmsa efnilega frjálsíþróttagarpa sem gætu kveðið sér hljóðs á næstu árum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.