Fellaskóli í úrslitum Skólahreysti í kvöld
Fellaskóli verður fulltrúi Austurlands í úrslitum í Skólahreysti sem fara fram í Laugadalshöll í kvöld. RÚV sýnir beint frá keppninni og hefst útsending kl. 19.40. Þetta er í fyrsta sinn sem Fellaskóli keppir til úrslita í Skólahreysti.Keppendur Fellaskóla eru þau: Ásta Evlalía Hrafnkelsdóttir sem tekur armbeygjur og hreystigreip, Elías Jökull Elíasson sem keppir í hraðaþraut, Hjálmar Óli Jóhannsson sem tekur upphífingar og dýfur, og Þuríður Nótt Björgvinsdóttir sem keppir í hraðaþraut. Hjördís Marta Óskarsdóttir er íþróttakennari í Fellaskóla og liðsstjóri.
Ellefu aðrir skólar eru í úrslitum en þeir eru: Grundaskóli á Akranesi, Grunnskólinn á Þingeyri, Heiðarskóli og Holtaskóli í Reykjanesbæ, Hvolsskóli á Hvolsvelli, Lágafellsskóli í Mosfellsbæ, Síðuskóli á Akureyri, Seljaskóli í Reykjavík, Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi, Vallaskóli á Selfossi og Varmahlíðarskóli.
Landsbankinn veitir nemendafélögum þriggja efstu skólanna peningaverðlaun. Keppendur sigurliðsins fá einnig vegleg verðlaun. Þá stendur bankinn einnig fyrir Instagram-myndakeppni og geta áhorfendur sent inn myndir merktar #skolahreysti. Bestu og frumlegustu myndirnar verða verðlaunaðar.