Leikur helgarinnar: Frískt lið Hattar rassskellti þunnskipaðan hóp Fjarðabyggðar

hottur kff kvk 01062014 dsoÞað voru einungis 13 leikmenn Fjarðabyggðar í hóp þegar þær heimsóttu Hött á Fellavelli í gær.Frá fyrstu mínútu sást hvort liðið væri betra og ætlaði sér sigur.

Áhorfendur þurftu að bíða í 13 mínútur eftir fyrsta marki leiksins en það gerði Magdalena Reimus af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Sigríðar Baxter þjálfara Hattarliðsins.

Fjórum mínútum seinna kom svo mark númer tvö þegar að Julie Berkshire átti laust skot utan af velli sem Ragnhildur Sævarsdóttir markmaður Fjarðabyggðar missti inn.

Næstu mínútur voru Hattarstúlkur líklegar með Siggu Baxter fremsta í flokki sem fór illa með gestina alla leikinn og réð Fjarðabyggð ekkert við hana inn á miðsvæðinu.

Fanney Kristinsdóttir skoraði þriðja mark leiksins með góðu skoti fyrir utan teig, sláin inn, fallegasta mark leiksins. Eitt mark átti svo eftir að líta dagsins ljós í fyrri hálfleik en það skoraði Magdalena eftir sendingu Siggu Baxter.

Fjögur núll í hálfleik og akkúrat ekkert í spilunum hjá gestunum.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá seinni endaði en á 47. mínútu skoraði Magdalena sitt þriðja mark eftir góðan undirbúning Alexöndru. 

Á 52. mínútu fór Kristín Inga Vigfúsdóttir illa með vörn Fjarðabyggðar og skoraði sláin inn utarlega í teignum. Sjöunda mark leiksins gerði Fanney Kristinsdóttir á 55. mínútu og átta mínútum síðar lagði Fanney upp mark á Kristínu Ingu. Nokkrum andartökum eftir það var staðan orðin 9-0 þegar að Alexandra potaði boltanum yfir línuna.Sigríður kom sér svo á blað á 66. mínútu þegar að hún skallaði boltann inn á nærstöng eftir hornspyrnu.

Eftir að Höttur komst í tíu núll fóru þær örlítið að slaka á og rúlla skiptingum en þunnur hópur Fjarðabyggðar átti samt sem áður fá svör og gerðu sig ekki líklega. Síðasta mark leiksins gerði síðan Magdalena en misheppnuð fyrirgjöf hennar sveif yfir Ragnhildi Ósk í mark Fjarðabyggðar.

Lið Hattar lítur vel út fyrir sumarið og munu þær gera tilkall til þess að fara upp í úrvalsdeild, það er klárt. Fjarðabyggð þarf hinsvegar eitthvað að skoða sín mál, enda ekki boðlegt að láta sína helstu andstæðinga fara svona með sig.

Í góðu liði Hattar var Sigga Baxter hvað öflugust auk þess að Magdalena átti mjög góðan dag frammi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar