Leikur helgarinnar: Vinstri löpp Jóa Ben sigldi heim þremur stigum á skökkum Eskjuvelli
Leikur Fjarðabyggðar og Völsungs hófst korteri eftir áætlaðan tíma. Ástæðan var víst sú að völlurinn sem dómarar héldu fyrst að væri of stór, var skakkur. Það er, hann var breiðari við annað markið og munaði víst einhverjum metrum þar á.Þrátt fyrir það var ákveðið að vera ekkert að mála hann upp á nýtt, enda hefði slíkur gjörningur tekið góðan tíma. Skemmtileg uppákoma sem tryggði að undirritaður náði að sjá allan leikinn og voru því einhhverjir sáttir með þetta en ljóst er að vallarstarfsmennirnir fá tæplega launahækkun þetta sumarið.
Hroðalegur fyrri hálfleikur
Fyrri hálfleikur var hreint út sagt skelfilegur. Það var helst að það væri hætta af Völsungi þegar að Bjarki Baldvins var á boltanum en gestirnir buðu ekki upp á margt. Sama á við um heimamenn en það var helst að það skapaðist usli í hvert skipti sem þeir fengu aukaspyrnu og var það sama hvar á vellinum það var, allar spyrnurnar frá Jóhanni Benediktssyni fóru nákvæmlega þangað sem þær áttu að fara. Ekki er það ósennilegt að vinstri löppin á Jóa sé sú langbesta í deildinni.
Eina alvöru færið í fyrri hálfleik kom á 35. mínútu þegar að Víkingur Pálmason átti frábæran skalla í slá og niður. Þar sem að fréttaritari sat virtist boltinn fara inn fyrir línuna en erfitt var þó að meta það og frekar kraftlitlir áhorfendur voru ekki mikið að heimta mark. Skrýtið.
Tvö rauð og tvö mörk í seinni
Seinni hálfleikur fór nokkuð rólega af stað, Völsungsmenn sluppu að vísu inn fyrir á 53. mínútu þrátt fyrir að vera rangstæðir en léleg klárun fór framhjá.
Tíu mínútum seinna átti Víkingur bylmingsskot af nokkuð löngu færi sem fór í slánna, úr því kom færi en Brynjar Jónasson framherji Fjarðabyggðar setti boltann yfir markið.
Á 65. mínútu átti bróðir Brynjars, hann Andri Jónasson glæfralega sendingu í vörninni sem Völsungur komst inn í og úr varð færi en boltinn fór fram hjá markinu.
Þegar að 69. mínútur voru liðnar af leiknum dróg loksins til tíðinda. Stefán Eysteinsson fyrirliði Fjarðabyggðar var hlaupandi með boltann í kringum miðju, er tæklaður af leikmanni Völsungs, hoppar upp úr tæklingunni og lendir á löpp andstæðingsins. Leit það út fyrir að vera óviljaverk en Helgi Mikael Jónsson dómari leiksins mat það sem svo að um viljaverk væri að ræða og fékk Stefán að fara í sturtu áður en búningsklefinn fylltist.
Ef eitthvað, þá efldi brottvikningin heimamenn og tveimur mínútum eftir hana þurftu Húsvíkingar að bjarga á línu eftir að Andri Þór Magnússon átti ágæta tilraun eftir hornspyrnu.
Leikurinn var orðinn 76 mínútna gamall þegar að loksins kom mark. Jói Ben átti þá aukaspyrnu lengst utan af vinstri kanti, boltinn sveif að nær stönginni þar sem að Brynjar Jónasson var mættur til að fleyta honum inn með hausnum.
Á 83. mínútu varð svo aftur jafnt í liðum þegar að Bergur Jónmundsson fékk rautt spjald eftir að hafa sparkað í átt að Andra Jónassyni. Leikmennirnir höfðu verið í einhverju klafsi um boltann sem endaði með því að Bergur fór niður og um leið sveiflaði löppinni að Andra. Af viðbrögðum Andra að dæma fékk hann þungt högg í bringuna en við fengum það ekki séð úr stúkunni. Bergur var ákaflega hissa á rauða spjaldinu, en undirritaður treystir sér ekki til að dæma hvort það hafi verið réttmætt eða ekki.
Síðustu 10 mínútur leiksins voru semsé 10 menn inná í hvoru liði og gekk leikurinn töluvert fram og tilbaka.
Þegar að í uppbótartíma var komið unnu Fjarðabyggð boltann í vörninni, Jói Ben leit upp og sá að varnarlína Völsungs var komin hátt upp enda voru þeir að gera sitt besta til að jafna. Almar Daði Jónsson stóð þá við miðjulínuna og slengdi Jói 30 metra sendingu inn fyrir vörnina sem Almar elti uppi, keyrði inn að marki og kláraði á nærstöng.
Meira gerðist ekki og voru úrslitin sanngjörn.
Leikurinn var ekkert sérstaklega mikið fyrir augað og varla hægt að tala um neinn „total football."
Besti maður vallarins var líklega Nikolas Jelicic sem spilaði sem djúpur tengiliður í liði heimamanna. Hann var ákaflega yfirvegaður á boltanum auk þess að sinna varnarskyldunni vel.
Lið Fjarðabyggðar er því komið með 10 stig eftir 5 umferðir sem er ágætis uppskera. Breiddin í liðinu er góð og varla hægt að tala um veika hlekki. Ef menn halda vel á spilunum er ekki ólíklegt að liðið geti blandað sér í baráttuna um það að komast í fyrstu deild.
Myndir: Garðar og Ásbjörn Eðvaldssyni