Knattspyrna: Harðsótt jafntefli á Vopnafirði - Myndir

einherji hottur juni14 0138 webLeikur Einherja og Hattar í 3. deild karla í knattspyrnu var grannaslagur með öllu sem því fylgir. Þjálfari og fyrirliði heimamanna eru fyrrum leikmenn Hattar auk þess sem samstarf hefur verið með liðunum um yngri flokka og því þekkjast menn ansi vel.

Leikurinn var því eins og gott ættarmót í sveitinni. Það var svolítið grátið, dálítið slegist en á endanum má reikna með að menn hafi fallist í faðma, sæmilega sáttir við skiptan hlut.

Heimamenn byrjuðu betur og léku af miklum krafti í sínum fyrsta leik á nýjum og glæsilegum velli. Hattarmenn náðu litlum takti í leik sinn og fljótir framherjar Einhverja, þeir Sigurður Donys Sigurðsson og Hákon Guðni Hjartarson ógnuðu stöðugt.

Fyrstu mínúturnar einkenndust annars af miklum pirringi og töluverðu tuði. Á miðsvæðinu var hart tekist á og voru menn snemma farnir á dansa á spjaldalínunni. Það dró síðan til tíðinda á 27. mínútu þegar að viðskiptum þeirra Jónasar Ástþórs Hafsteinssonar hjá Hetti og Gunnlaugs Bjarnars Baldurssonar hjá Einherja lauk með því að báðir fengu beint rautt spjald.

Af hliðarlínunni var þáttur hins síðar nefnda auðséður, en þar sem hann lá á jörðinni sparkaði hann hraustlega í andstæðing sinn og rautt spjald óumflýjanlegt. Aðdragandinn sást ekki eins vel en heimamenn fullyrtu að stigið hefði verið á sinn mann og aðstoðardómarinn var að minnsta kosti ekki í vafa og báðir fengu að fjúka út af.

Við þetta róuðust leikmenn örlítið um stund og rýmkaðist aðeins um spil, sem hentaði gestunum ágætlega. Um fimm mínútum síðar fékk Bragi Emilsson boltann uppi á vinstri kanti. Hann tók á rás umkringdur varnarmönnum og náði að fara fram hjá tveimur þeirra áður en Símon Svavarsson fór í hann utarlega í vítateignum þannig að hann féll við. Vítaspyrna var óumflýjanleg niðurstaða þó snertingin væri ekki mikil. Elvar Ægisson skoraði örugglega úr vítinu og staða gestanna því vænleg.

Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik þó leikmenn eyddu á köflum óþarflega miklum kröftum í röfl og almenn leiðindi. Þegar um hálftími var eftir af leiknum fékk hins vegar Anton Ástvaldsson, miðvörður Hattar, tvö gul spjöld á fimm mínútna kafla. Hið fyrra fékk hann fyrir að brjóta á Hákoni eftir að hann hafði náð að fara fram hjá tveimur varnarmönnum og var að komast í skotstöðu.

Hið síðara var umdeildara, en þá lentu hann og Víglundur Páll Einarsson, spilandi þjálfari Einherja, í kröftugu samstuði og fékk Víglundur olnboga í höfuðið og lá eftir. Dómarinn lyfti gula spjaldinu og þar með því rauða. Það er erfitt að mæla því í mót að Anton var með olnbogann á lofti en sennilega sá hann aldrei andstæðinginn fyrr en hann kom keyrandi af fullum krafti inn í hann.

Hvað svo sem því líður þurftu Hattarmenn að leika 9 á móti 10 síðasta hálftíma leiksins og ljóst að það yrði erfitt að halda fengnum hlut. Þrátt fyrir ágæta baráttu þyngdis sókn heimamanna stöðugt sem endað með því að Sigurður Donys fékk boltann uppi við vítateiginn hægra megin, gaf hann út í teiginn þar sem varamaðurinn Sigurður Vopni Vatnsdal afgreiddi boltann laglega í fjærhornið. Þetta var sérstaklega blóðugt fyrir Hattarmenn í ljósi þess að skömmu áður hafði Högni Helgason komist inn á vítateiginn og náði að pota boltanum fyrir markið þar sem varamaðurinn Marteinn Gauti Kárason var einn fyrir opnu marki, en náði ekki að stýra boltanum í netið.

Þótt jöfnunarmarkið kæmi á 89. mínútu var samt ennþá tími fyrir dramatík á báðum endum. Sigurður Donys fékk gult spjald á 94. mínútu fyrir glórulausa tæklingu á Jovan Kujundzic, miðverði Hattar, sem stuðningsmenn Hattar vildu sjá hann fjúka af velli fyrir. Á lokamínútunni braust síðan Elvar Ægisson, framherji Hattar, inn á vítateiginn og féll eftir tæklingu en dómarinn gaf ákveðið merki um að leik skyldi halda áfram, og það sennilega með réttu.

Jafntefli varð því niðurstaðan í hörkuleik og geta bæði lið sjálfsagt verið sátt miðað við hvernig leikurinn þróaðist.

Erfitt er að draga einhvern út úr frekar jöfnum liðum, en að öðrum ólöstuðum er ástæða til að minnast á frammistöðu Kristófers Arnar Kristjánssonar, bakvarðar Hattar, en hann var magnaður á lokamínútunum. Hann barðist eins og ljón og þó hann gæti ekki stöðvað aðdraganda jöfnunarmarksins var að mörgu leyti hægt að þakka honum það að Einherjamenn komust ekki á blað fyrr en þá.

Myndir: Örn Björnsson

einherji hottur juni14 0042 webeinherji hottur juni14 0064 webeinherji hottur juni14 0068 webeinherji hottur juni14 0075 webeinherji hottur juni14 0099 webeinherji hottur juni14 0103 webeinherji hottur juni14 0107 webeinherji hottur juni14 0117 webeinherji hottur juni14 0128 webeinherji hottur juni14 0139 webeinherji hottur juni14 0157 webeinherji hottur juni14 0163 webeinherji hottur juni14 0169 webeinherji hottur juni14 0193 webeinherji hottur juni14 0203 webeinherji hottur juni14 0215 webeinherji hottur juni14 0232 webeinherji hottur juni14 0279 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar