Leikur helgarinnar: Fjórði sigur Hugins í röð - Myndir

huginn ir juni14 0006 webHuginn náði í þrjú dýrmæt stig þegar liðið vann ÍR 2-1 á Seyðisfjarðarvelli á laugardag. Segja má að heimamenn hafi stolið sigrinum með marki úr vítaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok því þangað til höfðu Huginsmenn aðallega hafst við á eigin vallarhelmingi.

Leikurinn var þó jafnari í fyrri hálfleik. Huginsmenn réðu ferðinni en ÍR-ingar beittu skyndisóknum og voru sterkir í föstum leikatriðum.

Upp úr einu slíku kom fyrsta markið á 14. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Kristján Smára Guðjónsson fyrir að halda báðum höndum utan um sóknarmann ÍR á markteig eftir hornspyrnu. Huginsmenn voru undrandi á dóminum enda virtist sóknarmaðurinn ekki gera atlögu að boltanum.

Það skipti engu. Jón Gísli Ström skoraði úr vítinu en Atli Gunnar Guðmundsson var ekki langt frá því að verja það.

Huginsmenn jöfnuðu á 26. mínútu. Eftir langa sendingu frá vinstri barst boltinn til Milosar Ivankovic á hægri markteignum og hann lyfti boltann snyrtilega yfir markvörð ÍR í fjærhornið.

ÍR-ingar tóku öll völd á vellinum eftir leikhlé og fengu þrjú dauðafæri á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleik. Eitt skotið fór naumlega yfir, næst var hreinsað á línu og það þriðja varði Atli.

Eftir það jafnaðist leikurinn á ný og Ingólfur Árnason fékk ágætt færi á 67. mínútu eftir vel útfærða hornspyrnu en valdi frekar að reyna senda boltann en skjóta á markið.

Þegar tíu mínútur voru eftir fengu Huginsmenn dæmda vítaspyrnu. Eftir langa aukaspyrnu skoppaði boltinn út í teiginn þar sem Kristján Smári ætlaði að skalla hann. Hann hafði hins vegar ekki jafnvægi til þess þar sem varnarmaður ÍR bakkaði undir hann. Einar Ingi Jóhannsson var jafn miskunnarlaus og fyrr og benti á vítapunktinn við litla hrifningu gestanna.

Friðjón Gunnlaugsson skoraði hins vegar örugglega úr vítinu og það sem eftir var stóðust Huginsmenn pressu ÍR-ingar. Þeir fengu meira að segja færi til að bæta við, Ingólfur Árnason komst einn inn fyrir vörnina vinstra megin en skaut framhjá.

Sigurinn það eina sem menn muna eftir

„Við vorum ágætir, ekkert frábærir en við unnum og það er það eina sem menn muna eftir," sagði Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins í samtali við Austurfrétt eftir leik.

„Ég hef ákveðnar skoðanir á ákveðnum hlutum en það verður farið yfir þær á æfingum."

Huginn er í þriðja sæti annarrar deildar með 12 stig úr sex leikjum sem má teljast gott miðað við að liðið er nýtt í deildinni og var spáð falli fyrir tímabilið.

„Byrjunin er vonum framan. Við náðum engu undirbúningstímabili og notuðum fyrstu 3-4 leikina í að prófa okkur áfram. Kerfið sem við notuðum í fyrra virkaði ekki þannig við þurftum að breyta um. Svona spilum við núna og höfum unnið fjóra leiki í röð."

Huginn fór upp fyrir ÍR með sigrinum og það sama gerði Fjarðabyggð með 0-3 sigri á Njarðvík á útivelli. Brynjar Jónasson skoraði tvö mörk og Jóhann Ragnar Benediktsson eitt.

Sigurður Vopni Vatnsdal var hetja Einherjamanna annan leikinn í röð en hann skoraði sigurmarkið gegn Hamri á 34. mínútu en liðið mættust á Vopnafirði í gær.

Fanney Kristinsdóttir skoraði bæði mörk Hattar sem vann Álftanes á föstudagskvöld. Mörkin komu á 44. og 49. mínútu. Álftanes vann hins vegar Fjarðabyggð 0-3 á Norðfjarðarvelli í gær.

Myndband: Huginn Seyðisfirði

huginn ir juni14 0022 webhuginn ir juni14 0024 webhuginn ir juni14 0031 webhuginn ir juni14 0033 webhuginn ir juni14 0035 webhuginn ir juni14 0040 webhuginn ir juni14 0046 webhuginn ir juni14 0048 webhuginn ir juni14 0051 webhuginn ir juni14 0054 webhuginn ir juni14 0057 webhuginn ir juni14 0059 webhuginn ir juni14 0060 webhuginn ir juni14 0062 webhuginn ir juni14 0063 webhuginn ir juni14 0064 webhuginn ir juni14 0074 webhuginn ir juni14 0078 webhuginn ir juni14 0083 webhuginn ir juni14 0085 webhuginn ir juni14 0095 webhuginn ir juni14 0099 webhuginn ir juni14 0103 webhuginn ir juni14 0111 webhuginn ir juni14 0113 webhuginn ir juni14 0143 web


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar