Landsliðsmenn í handbolta koma austur: Skemmtilegur þáttur í sumarfríinu

handbolti island belgia gvsGuðjón Valur Sigurðsson, Björgvin Páll Gústafsson og Aron Pálmason, landsliðsmenn í handknattleik, leggja í dag af stað í ferð um landið til að safna peningum fyrir Barnaspítala Hringsins og kynna handknattleik. Egilsstaðir verða fyrsti viðkomustaðurinn í ferðinni.

„Þetta er hugmynd sem kom frá Guðjóni Val að fara í eina ferð til að kynna handboltann á minni stöðunum, styrkja gott málefni og skemmta okkur saman í leiðinni," segir Björgvin Páll.

Leikmennirnir verða á Egilsstöðum á morgun frá klukkan 9 til 14. Þeir eru í sumarfríi að loknu löngu og ströngu keppnistímabili með liðum sínum í Evrópu. „Fyrir okkur er þetta fyrsti parturinn af sumarfríinu. Það er ekkert betra en að flækjast um landið og hitta skemmtilegt fólk og skemmtilega krakka," segir Björgvin.

Egilsstaðir eru eini viðkomustaðurinn á Austurlandi en einnig verður komið við á Húsavík og Ísafirði. Að sjálfsögðu verða landsliðsmennirnir með handboltaæfingar á hverum stað. „Við vinnum þetta með þjálfurum á hverjum stað en komum með okkar hugmyndir inn á æfingarnar og sýnum einhver trix til að gera þær skemmtilegri."

Þá verður ferðin notuð til að safna styrkjum til Barnaspítala Hringsins. „Við reynum að gera sem mest á stuttum tíma," segir Björgvin. Nánari upplýsingar um ferðina má finna á www.uia.is.
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar