Leikir helgarinnar: Aron Gauti gjaldgengur í toppslag með Hetti

2Aron Gauti Magnússon, sem í vikunni skipti úr Fjarðabyggð í Hött, verður gjaldgengur með Egilsstaðaliðinu í kvöld þegar það tekur á móti Magna frá Grenivík í toppslag þriðju deildar karla í knattspyrnu. Aron Gauti segist hafa gengið til liðs við Hött í von um fleiri tækifæri með meistaraflokki.

„Ég fékk fáa sénsa í meistaraflokki hjá Fjarðabyggð og fyrst mér stóð til boða að fara yfir í Hött og spila með meistaraflokki ákvað ég að slá til," segir Aron Gauti sem í sumar hefur aðallega spilað með öðrum flokki sem keppir undir merkjum UÍA.

„Ég get áfram spilað með öðrum flokknum og þetta er gott tækifæri til að spila með meistaraflokki."

Aron Gauti er 17 ára miðvallarleikmaður, uppalinn í Austra á Eskifirði og lék í fyrra fjóra leiki með U-17 ára landsliði Íslands. Hann á að baki fimm meistaraflokksleiki með Fjarðabyggð en báðir leikirnir í ár voru í bikarkeppninni.

Hann verður gjaldgengur með Hetti sem tekur á móti Magna á Vilhjálmsvelli klukkan 20:00 í kvöld. Stigi munar á Magna í öðru sæti deildarinnar og Hetti í þriðja sæti en liðin eiga bæði leiki til góða á topplið ÍH. Það lið sem vinnur í kvöld getur því náð efsta sætinu.

Leiknir er í fjórða sæti með einu stigi minna en Höttur og heimsækir Berserki á Víkingsvöll í Reykjavík á sama tíma.

Einherjamenn leggja upp í langferð, heimsækja Víði í Garði í kvöld og spila við Rangæing á Hvolsvelli á sunnudag.

Fjarðabyggð, sem komst í efsta sætið í annarri deild með sigri á Gróttu um síðustu helgi, heimsækir Fjallabyggð á Ólafsfjörð á morgun klukkan 14:00. Tveimur tímum síðar verður flautað til leiks á Seyðisfjarðarvelli þar sem Huginn, sem er í fjórða sæti, tekur á móti Dalvík/Reyni.

Í B-riðli fyrstu deildar kvenna tekur Fjarðabyggð á móti ÍR á Norðfjarðarvelli klukkan 20:00 í kvöld. Breiðholtsliðið heldur síðan upp í Egilsstaði og mætir Hetti á Vilhjálmsvelli klukkan 14:00 á sunnudag. Höttur er í öðru sæti riðilsins með 13 stig úr 5 leikjum en Fjarðabyggð er neðst án stiga.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.