Torfærukeppni á morgun: Lofa biluðum tilþrifum
Skipuleggjendur torfærukeppni sem haldin verður í Mýnesgrús við Egilsstaði á morgun vonast eftir miklum tilþrifum og harðri keppni þeirra sem mæta til leiks. Um verður að ræða einhverja fjölmennustu keppni ársins.„Ef menn standa pinnann þá ættu áhorfendur að fá að sjá flugferðir eða eitthvað flott," segir Ólafur Bragi Jónsson, heimsmeistari í torfæru.
Hann náði í tignina í fyrra en hefur sjálfur ekki keppt á þessu ári. Fulltrúar Austurlands í ár verða Guðlaugur Helgason á Galdra-Gul, Hlynur Sigbjörnsson á Tímaurnum og Sveinbjörn Reynisson í flokki götubíla.
Ólafur Bragi segir Hlyn binda sérstakar vonir við að standa sig betur en í fyrra en hann keppti í sinni fyrstu keppni þá.
Til leiks eru skráðir 22 bílar, 17 í flokki sérútbúinna og sérútbúinna götubíla og fimm í flokki götubíla. Keppnin er liður í Íslandsmótinu.
Keppnirnar á Egilsstöðum hafa löngum haft gott orð á sér fyrir skemmtilegar brautir. Ólafur Bragi er meðal þeirra sem lagt hafa þær. Há vatnsstaða í Lagarfljóti hefur verið þeirra helsta áhyggjuefni en það þýðir á móti að ekki skortir vatn til að keyra yfir í hinni frægu tímaþraut, sem er síðust í röðinni.
Keppnin á morgun hefst klukkan 13:00.