Leikur helgarinnar: Þægilegur sigur Hattar á Magna

hottur magni kbHöttur og Leiknir eru í efstu sætum þriðju deildar karla í knattspyrnu eftir sigra um helgina. Höttur tók á móti Magna frá Grenivík á föstudagskvöld og þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum í blíðskaparveðri á Egilsstöðum.

Leikurinn um fimm mínútna gamall þegar öllum áhorfendum var orðið ljóst hvort liðið væri betra. Magni átti fá svör við Hattarliðinu sem var þó ekki að spila í fimmta gír, meira svona þeim þriðja.

Eftir um 10 mínútur skaut Brynjar Árnason fallegri aukaspyrnu í slá, Bragi Emilsson var mættur í frákastið og negldi boltanum í slánna sömuleiðis en ansi mörg skot Hattar í sumar hafa endað í hinu margumtalaða tréverki.

Fimm mínútum síðar pressaði Hattarliðið vel vörnina hjá Magna og kom fát á mannskapinn, boltinn út á kant þar sem Kristófer Kristjánsson sendi boltann fyrir á hausinn á Braga en Borgfirðingurinn skallaði boltann yfir.

Á 20. mínútu komst svo Höttur nálægt því að skora en léleg hreinsun barst út á Högna Helgason sem skallaði boltann utan teigs en boltinn lak framhjá.

Þegar hálftími var búinn af leiknum lék Brynjar boltanum fallega upp á hægri kant þar sem að Bragi tók við honum, sendi fasta lága sendingu fyrir og þangað var mættur Högni til þess að tækla hann yfir línuna, staðan 1-0.

Restin af fyrri hálfleik fór svo að fram á miðjunni en Höttur var þó líklegri.

Tók brottvikningunni illa

Það var um sjö mínútur búnar af seinni hálfleik þegar að Garðar Már Grétarsson setti Braga snyrtilega inn fyrir, Bragi beið eftir hlaupi frá Brynjari af miðjunni og renndi honum út en markmaður Magna, Sveinn Bogason varði vel skot Brynjars.

Á 59. mínútu missti svo Magni einn sinn besta mann útaf þegar að Victor Da Costa ýtti á bakið á Elvari Ægissyni eftir að Elvar hafði komist inn fyrir og inn í teig Magna. Þetta var seinna gula spjald Da Costa sem tók brottvikningunni vægast sagt illa og lét hann dómara og áhorfendur vita hvað honum þætti um þetta allt saman.

Eftir að hafa labbað útaf rölti Da Costa upp í stúku þar og heyrðist þar manna mest í honum það sem eftir lifði leiks. Það er þó rétt að benda á að stuðningsmenn Hattar geta alveg tekið það til sín það mætti oft og næstum alltaf vera meiri stuðningur úr stúkunni en vel var þó mætt þetta kvöldið.

En að leiknum. Elvar tók vítið sjálfur og skoraði örugglega, staðan orðin 2-0 og ljóst að Höttur væri að fara að landa enn einum sigrinum.

Síðasti hálftíminn var engin sérstök skemmtun en ef eitthvað komst Magni meira inn í leikinn. Högni átti góða tilraun þegar um átta mínútur voru eftir af leiknum en Sveinn Bogi varði vel og fleira markvert gerðist ekki.

Þrátt fyrir nokkuð öruggan sigur á Höttur talsvert inni ef miðað er við þennan leik.

Bestu leikmenn vallarins voru að mati undirritaðs þeir Bragi, Högni og Friðrik Ingi Þráinsson leikmenn Hattar en lítið reyndi á vörn og markmann Hattar.

Leiknir og Fjarðabyggð efst

Eftir helgina eru Höttur ásamt Leikni og ÍH öll með 14 stig en Höttur á inni einn leik á Leikni og tvo á ÍH.

Leiknir lagði ÍH á útivelli um helgina 1-3 þar sem að hinn stórefnilegi Kristófer Páll Viðarsson skoraði öll mörk Fáskrúðsfirðinga á síðasta hálftíma leiksins. Fáskrúðsfirðingar voru manni fleiri í klukkutíma eftir að markverði heimamanna var vikið af velli. Á föstudag gerði Leiknir 2-2 jafntefli við Berserki þar sem Hilmar Freyr Bjartþórsson og Arkadiusz Grzelak skoruðu.

Í sömu deild gerði Einherji 3-3 jafntefli við KFR. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði gæði mörk Einherjamanna sem nýttu sér að einum heimamanna var vísað af velli.

Í annarri deild heldur Fjarðabyggð efsta sætinu eftir 0-3 útisigur á Fjallabyggð. Brynjar Jónasson skoraði tvö mörk og Hákon Þór Sófusson á tíu mínútna kafla frá 73. – 83. mínútu.

Huginn gerði 2-2 jafntefli við Dalvík/Reyni á heimavelli. Gestirnir komust yfir en Alvar Alvaro jafnaði eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Gestirnir misstu mann af velli þegar 20 mínútur voru á eftir og það nýttist Huginsmönnum á 90. mínútu þegar Ingólfur Árnason. Forustan entist ekki nema í tvær mínútur en þá jafnaði Dalvík/Reynir og þar við sat.

Ástrós Eiðsdóttir og Sasithorn Phuangkaew skoruðu mörk kvennaliðs Fjarðabyggðar sem fékk sín fyrstu stig í sumar með 2-2 jafntefli við ÍR á föstudagskvöld. Hetti mistókst hins vegar að ná efsta sætinu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við ÍR í gær.

Hattarmenn þakka fyrir stuðninginn. Mynd: Kalli Ben

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar