Óðinn Björn kastaði lengst á Strandamanninum sterka - Myndir
Kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson náði bestum árangri á frjálsíþróttamótinu Strandamaðurinn sterki sem fram fór á Egilsstöðum fyrir skemmstu.Mótið var kennt við Hrein Halldórsson og haldið af honum í samvinnu við UÍA. Óðinn Björn, sem keppir fyrir Ármann, kastaði 7,26 kg. kúlunni 17,89 metra. Í flokki 18-19 ára þar sem kastað er 6 kg kúlu sigraði Guðni Valur Guðnason úr ÍR, með kasti upp á 16,51 metra.
Í spjótkasti karla sigraði Guðmundur Sverrisson frá ÍR en hann kastaði lengst 77,95 metra. Þjálfari hans er Einar Vilhjálmsson.
Í kringlukasti karla sigraði Sindri Lárusson með kasti upp á 42,69 metra. Í flokki 18-19 ára vann Guðni Valur með kasti upp á 49,07 metra, en kringlan er léttari í þeim aldursflokki.
Aðaláhersla mótsins var á kastgreinar en einnig var keppt í stökkum og hlaupum. Skipuleggjendur eru ánægðir með mótið enda fengu þeir gott veður. Þetta var í fyrsta skipti sem mótið fer fram og vonast er til þess að það stækki með árunum.
Austurfrétt leit við og fangaði átökin í kúluvarpskeppninni þar sem Atli Sverrisson var fulltrúi Austfirðinga.