Torfærubrautir reyndu á bíla og ökumenn - Myndir
Átján keppendur, þar af tveir Austfirðingar, mættu til leiks í Egilsstaðatorfærunni sem fram fór í Mýnesgrús um síðustu helgi. Þeir sýndu á köflum stórglæsileg tilþrif þótt misvel gengi að keyra þrautirnar.Flestir keppendurnir, 11 talsins, voru skráðir til leiks í sérútbúnum flokki. Þeirra á meðal var Guðlaugur Helgason á Galdra Gul sem hafnaði í sjöunda sæti.
Hlynur Sigbjörnsson varð í öðru sæti í flokki sérútbúinna götubíla á Tímaurnum. Keyrðar eru sömu brautir í flokkunum en fyrrnefndi flokkurinn notast við skófludekk en sá síðarnefndi ausudekk.
Fjöldi áhorfenda mætti á svæðið til að fylgjast með tilþrifum keppenda. Brautirnar voru verulega krefjandi og gekk keppendum misvel að komast upp þær. Á köflum juku vandræðin á skemmtunina.
Austurfrétt mætti á svæðið og fangaði nokkur augnablik í brautunum.