Umfjöllun: Binni bomba skipti sér inn á til að draga stig í land gegn Fjarðabyggð
Það var þungt yfir Eskifirði í kvöld, rétt eins og það hefur verið þungt yfir heimamönnum í Fjarðabyggð eftir jafntefli þeirra við Huginn í annarri deild karla í knattspyrnu í kvöld.Einstefna heimamanna í fyrri hálfleik
Það var ágætis mæting á Eskjuvöll í kvöld þrátt fyrir rigningarúða og þoku á Eskifirði.
Léttvotir áhorfendur voru einungis búnir að horfa á fótbolta í um eina mínútu þegar fyrsta tilraun leiksins leit dagsins ljós en þá átti Martin Sindri Rosenthal ágætis skot utan við teig en hann fékk boltann á lofti en boltinn fór yfir markið.
Eftir um 18 mínútur, sem voru meira spilaðar á vallarhelmingi, Hugins fékk Fjarðabyggð góð tækifæri á að skora en boltinn fór tvívegis í tréverkið, í seinna skiptið úr góðu færi við markteig en Brynjar Jónasson hafði ekki hepnina með sér. Stuttu síðar fengu Fjarðabyggð fleiri tækifæri á að skora en Atli Gunnar Guðmundsson gerði vel í tvígang.
Þegar rúmar þrjátíu mínútur voru komnar á leikklukkuna kom Brynjar sér í dauðafæri þar sem hann lék vel á vörn Hugins hægra megin og skaut ágætu skoti á markið sem að Atli varði mjög vel með löppinni.
Nokkrum mínútum seinna kom Stefán Eysteinsson fyrirliði Fjarðabyggðar sér í ágætis færi utarlega í teignum en Atli mætti snemma og átti ekki í vandræðum með skot Stefáns.
Fyrsta mark leiksins kom svo þegar tvær mínútur voru til hálfleiks.
Löng aukaspyrna Fjarðabyggðar rataði að því virtist á kollinn á Brynjari sem skallaði boltann að marki, Atli Gunnar varði skallann en missti boltann frá sér og í frákastið var mættur enginn annar en fyrrverandi leikmaður Hugins, Bretinn Nik Chamberlain.
Erfitt er að ætla að skammast í Atla sem var annars besti leikmaður Hugins í leiknum þrátt fyrir klaufaskap þarna. Meira gerðist ekki í fyrri hálfleik og gátu árskortshafar Fjarðabyggðar fengið sér kaffi í hálfleik inni í sundlaug en ekki vallarhúsinu þar sem lykillinn að því er týndur.
Drápseðlið vantaði í heimamenn
Alvaro Calleja Alvaro gerði sig líklegan snemma í fyrri hálfleik en tilraun hans fór yfir markið. Á 58. mínútu var ákveðið klafs inn í teig Hugins og átti Brynjar Jónasson skottilraun sem að Fljótsdælingurinn Ingimar Jóhannsson náði að tækla í horn, vel gert hjá honum.
Rúnar Freyr Þórhallsson átti ágæta fyrirgjöf á Alvaro stuttu eftir þetta en skalli Alvaro var laus og skapaði engin vandamál.
Á 73. mínútu fékk Fjarðabyggð færi á að gera út um leikinn en Brynjar setti boltann yfir úr ágætu færi. Þegar hér er komið við sögu voru Huginsmenn búnir að vera rænulitlir og virtust ekki líklegir til að ætla koma til baka.
Brynjar Skúlason þjálfari Hugins virtist vera kominn með nóg af yfirburðum heimamanna og setti sjálfan sig inná þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. Það borgaði sig.
Síðustu tíu mínútur leiksins virkuðu Fjarðabyggðarmenn nokkuð stressaðir og leikar fóru að æsast. Þegar 84. mínútur voru búnar kom löng sending fram völlinn, Brynjar Skúlason hafði þar betur í baráttu við varnarmann Fjarðabyggðar og skallaði boltann inn fyrir.
Auðvitað skilaði það marki, en Tommy Nielsen náði ekki að teygja sig til boltans og í hlaupið var mættur Alvaro sem kláraði færið snyrtilega fram hjá Kile Kennedy.
Markið auðvitað áfall fyrir heimamenn sem gátu sjálfum sér um kennt að vera ekki búnir að klára baráttuglaða Seyðfirðinga.
Heimamenn geta svo þakkað markmanni sínum fyrir að fá þó eitt stig úr leiknum en á 89. mínútu varði Kyle aukaspyrnu Marko Nikolic meistaralega en boltinn var á leið í samskeytin.
Alvaro fékk svo hálffæri þegar mínúta var eftir en tilraun hans fór í fangið á markmanni Fjarðabyggðar.
Það er engin spurning að Fjarðabyggð er svekkt með einungis eitt stig en spilamennska þeirra fyrstu áttatíu mínútur leiksins var góð en vandamálið er að knattspyrnuleikur er níutíu mínútur.
Þó að þeir hefðu viljað þrjú stig í dag þá er staðan góð hjá liðinu sem situr á toppnum í deildinni og eru til alls líklegt í sumar.
Austfirsku liðin í fyrstu deild kvenna og þriðju karla eiga leiki um helgina. Einherji tekur á móti Berserkjum klukkan 16:00 á laugardag en Höttur heimsækir Víði í Garði heim í þriðju deildinni.
Í kvennaboltanum heimsækir Fjarðabyggð Völsung á föstudagskvöld en Höttur Þrótt í Reykjavík á sunnudag.
Myndir: Austurfrétt/Gunnar